138. löggjafarþing — 86. fundur,  4. mars 2010.

árleg ráðstefna á Akureyri um málefni heimskautasvæðanna.

341. mál
[15:52]
Horfa

Flm. (Höskuldur Þórhallsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég flyt hér tillögu til þingsályktunar um árlega ráðstefnu á Akureyri um málefni heimskautasvæðanna. Flutningsmenn ásamt mér eru allir þingmenn Norðausturkjördæmis, hv. þm. Björn Valur Gíslason, Þuríður Backman, Kristján Þór Júlíusson, Tryggvi Þór Herbertsson, Birkir Jón Jónsson, Sigmundur Ernir Rúnarsson og Jónína Rós Guðmundsdóttir. Það er því breið og mikil samstaða um að reynt verði með öllum mætti að koma á þessari árlegu ráðstefnu á Akureyri um málefni heimskautasvæðanna. Ég tel að þetta sé mjög mikilvægt vegna þess að augu alheimsins beinast einmitt að þessu svæði. Hér eru ríkar auðlindir og Evrópusambandið hefur til að mynda sett á laggirnar sérstaka nefnd sem hefur það eina hlutverk að fjalla um málefni á norðurhjara veraldar og þessara heimskautasvæða.

Það er líka brýnt að brugðist verði skjótt við og ég hef fundið meðbyr hjá mörgum þingmönnum í hvaða flokki sem er, skiptir þá engu máli hvort um er að ræða stjórn eða stjórnarandstöðu, að Íslendingar taki svolítið frumkvæði í þessum málum. Ég mun koma aðeins betur að því hér á eftir en Háskólinn á Akureyri hefur verið leiðandi í þessu starfi.

Fyrir ekki svo löngu síðan boðuðu Kanadamenn til ráðstefnu um sjálfsstjórn norðurskautssvæðanna. Kanadamenn buðu ýmsum aðildarlöndum Norðurskautsráðsins til fundarins sem haldinn verður núna í mars. Það sem vekur athygli er að á þessari ráðstefnu eru fulltrúar frá Noregi, Rússlandi, Danmörku, og þar með Grænlandi, og Bandaríkjunum. Þar á að ræða leiðir til að efla efnahagsþróun á norðurhjara áður en utanríkisráðherrafundur G8-ríkjanna verður haldinn í Gatineau í Québec og viðræður um málefni norðurslóðanna eru einmitt á vettvangi norðurskautsráðsins. Auðvitað hefðum við átt að boða Íslendinga á þessa ráðstefnu en því miður misfórst það af einni eða annarri ástæðu. Ég tel að það hafi verið mikil mistök vegna þess að ef einhverjir eiga að eiga frumkvæði á þessu sviði eru það einmitt Íslendingar.

Össur Skarphéðinsson, hæstv. utanríkisráðherra, mótmælti þessu og sagði að auðvitað hefði átt að bjóða Íslendingum. Ég tek undir með honum og lýsi yfir ánægju með að hann skyldi bregðast svona skjótt við og segja frá því að okkur Íslendingum hugnist ekki þessi meðferð. Ég ítreka það sem ég sagði hér áðan, það er mjög mikilvægt að við Íslendingar bregðumst skjótt við og komum þessari þingsályktun fram.

Í september 2008 var í fyrsta sinn haldið alþjóðlegt þing á Akureyri um lögfræðileg málefni heimskautasvæðanna. Háskólinn á Akureyri stóð fyrir ráðstefnunni og var Háskóli Sameinuðu þjóðanna í Tókýó meðal þeirra sem tóku þátt í undirbúningnum. Ráðstefnunni var ætlað að vera upphafið að árlegu ráðstefnuhaldi með yfirskriftinni „The Polar Law Symposium“. Þingið sátu helstu sérfræðingar á sviði heimskautaréttar og vakti ráðstefnan athygli víða um heim.

Í ávarpi sínu í upphafi þings sagði dr. Bakary Kante, yfirmaður laga- og sáttmáladeildar Umhverfisstofnunar Sameinuðu þjóðanna að hann sæi fyrir sér að Akureyri yrði eins konar Davos umhverfismála, þ.e. miðstöð umræðu um málefni heimskautasvæðanna. Þessi maður lýsti sig reiðubúinn til að leggja sitt af mörkum til að svo mætti verða. Dr. Kante sagði árlega ráðstefnu á Akureyri m.a. geta snúist um fjölþjóðlega umhverfissáttmála, hvernig þeir gætu verndað heimskautasvæðin, leyst vandamál og ógnir sem við er að glíma og á hvern hátt þeir gætu vísað leiðina í stjórn á umhverfismálum á heimskautasvæðunum þar sem allir jarðarbúar eiga verulegra hagsmuna að gæta. Háskóli Sameinuðu þjóðanna hefur gefið út skýrslu um ráðstefnuna og er þar helstu niðurstöðum þingsins lýst.

Í september 2009 var haldin önnur alþjóðleg ráðstefna undir yfirskriftinni The Polar Law Symposium. Í nóvember kom út fyrsta bindi árbókar heimskautaréttarins, The Yearbook of Polar Law . Þar birtust flestir fyrirlestrarnir sem fluttir voru á ráðstefnunni árið áður.

Nú þegar er hafinn undirbúningur að þriðju alþjóðlegu ráðstefnunni um málefni heimskautaréttarins undir yfirskriftinni The Polar Law Symposium sem ætlunin er að halda 9.–11. september 2010. Ráðstefnuhaldið hefur frá upphafi tengst meistaraprófsnámi í heimskautarétti við Háskólann á Akureyri en það hófst haustið 2008. Eins og ljóst má vera af áðurgreindu er mikilvægt að fylgja þessu framtaki eftir og missa ekki það frumkvæði sem hefur verið staðfest með tveimur fyrstu alþjóðaráðstefnunum á sviði heimskautaréttar. Þannig má treysta Akureyri í sessi sem vettvang á heimsvísu í umræðunni um stöðu heimskautasvæðanna.

Ég vil af þessu tilefni benda á það að í Háskólanum á Akureyri er orðin mikil sérfræðiþekking sem tengist þessum málefnum. Háskólinn á Akureyri er leiðandi í þessum fræðum og hann mundi hafa veg og vanda af þessari ráðstefnu sem, eins og áður segir, mundi vekja athygli úti um allan heim.

Virðulegi forseti. Ég óska eftir því að þessi þingsályktunartillaga fari til hv. utanríkismálanefndar. Ég vona að hún fái þar góða og mikla umfjöllun og að við getum svo einhvern tíma greitt atkvæði um hana. Ég veit að hún verður í góðum höndum hv. þm. Árna Þórs Sigurðssonar, formanns nefndarinnar.