138. löggjafarþing — 86. fundur,  4. mars 2010.

meðferð einkamála.

393. mál
[16:16]
Horfa

Flm. (Árni Þór Sigurðsson) (Vg):

Frú forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um meðferð einkamála, nr. 91/1991 og fjallar það um hópmálsókn svokallaða. Það er á þskj. 701, 393. mál. Flutningsmenn ásamt mér að þessu frumvarpi eru hv. þm. Steinunn Valdís Óskarsdóttir, Ólöf Nordal, Siv Friðleifsdóttir, Margrét Tryggvadóttir, Ögmundur Jónasson, Magnús Orri Schram, Erla Ósk Ásgeirsdóttir, Birgitta Jónsdóttir og Þór Saari.

Frumvarp þetta er flutt á 136. löggjafarþingi en komst þá ekki til umræðu og er núna endurflutt. Það felur í sér viðbót við lög um meðferð einkamála, nr. 91/1991, og innleiðir réttarúrræðið hópmálsókn í íslenskt réttarfar. Úrræðið hefur gengið undir íslenska heitinu „hópmálsókn“ en einnig undir heitinu „fjöldamálsókn“. Við samningu þessa frumvarps var ákveðið að notast við orðið hópmálsókn þar sem hentugast þótti að notast við hugtakið hópur í lagatexta frumvarpsins.

Í úrræðinu felst heimild til handa hópi aðila, bæði einstaklinga og lögaðila, til þess að höfða sameiginlega dómsmál til kröfu um bætur vegna tjóns eða lögbrota. Nú þegar er í lögum um meðferð einkamála úrræði þar sem aðilar dómsmáls eru fleiri en einn og má þar m.a. nefna ákvæði 18. gr. laganna um meðferð einkamála um samaðild, ákvæði um samlagsaðild, um málsóknarumboð félaga og samtaka og um kröfusamlag. Þrátt fyrir þessi úrræði er það mat flutningsmanna þessa frumvarps að sérstakt úrræði um hópmálsókn sé nauðsynleg viðbót við íslenskt réttarfar. Stafar það af því að áðurnefnd úrræði sem þegar eru í lögum ganga styttra en úrræðið hópmálsókn enda eru núverandi úrræði yfirleitt túlkuð fremur þröngt og hafa þann tilgang helstan að vera til hagræðis auk þess sem nokkur óvissa er um hvort eiginleg hópmálsókn geti fallið undir ákvæði 19. gr. einkamálalaga. Með því að innleiða sérstaklega úrræðið um hópmálsókn er orðið til viðurkennt úrræði fyrir hóp manna sem eiga einsleitar kröfur til þess að leita einkaréttarlegra úrræða og bóta vegna tjóns eða brots sem viðkomandi aðilar hafa orðið fyrir. Það verður því að teljast vera þörf á réttarfarsúrræði sem á skilvirkan hátt tekur til ágreiningsmála þar sem um er að ræða fjölda sams konar krafna og þá einkum í þeim tilfellum þar sem kröfurnar eru svo lágar að þeim er ekki fylgt eftir af einstaklingum meðal annars vegna kostnaðar og óvissu í tengslum við kröfuna.

Úrræðið „hópmálsókn“ tryggir hópi aðila einkaréttarlegt úrræði til viðbótar við opinber úrræði vegna tjóns eða brota. Þannig eru starfandi ýmsar opinberar kærunefndir eða úrskurðarnefndir sem neytendur eða aðilar geta leitað til með mál sín. Slíkar nefndir hafa þá heimild til að úrskurða um réttarbrot og í sumum tilfellum heimild til þess að leggja á viðkomandi brotlegan aðila stjórnvaldssekt. Hins vegar er ekki til heimild hjá úrskurðar- eða kærunefndum til þess að úrskurða tjónþolum bætur. Er því nauðsynlegt að til staðar séu einkaréttarleg úrræði fyrir neytendur og aðila að fá tjón sitt bætt. Helstu kostir slíks einkaréttarlegs kerfis eru að það veitir nokkurt aðhald, bæði til handa því fyrirtæki sem málið snertir og til handa hinum opinbera úrskurðaraðila. Þá er þetta úrræði líklegt til þess að hafa veruleg varnaðaráhrif á fyrirtæki og líklegast muni það valda því að virðing fyrir reglum og úrskurðum opinberra aðila eða kærunefnda aukist.

Nágrannalönd Íslands hafa öll innleitt í löggjöf sína úrræðið um hópmálsókn. Svíar urðu fyrstir til þess og settu sér löggjöf um hópmálsókn árið 2003 en löggjöf Norðmanna, Dana og Finna um hópmálsóknir tók gildi 1. janúar 2008. Ísland er þannig eitt Norðurlandanna sem skortir ákvæði um hópmálsókn. Þá hefur nokkur umræða verið um þetta réttarúrræði víðar í Evrópu og hefur framkvæmdastjórn Evrópusambandsins gefið út bæði grænbók árið 2005 og hvítbók í apríl árið 2008 um tillögur að reglum um það sem kallað er „collective consumer redress actions“ og er þar um að ræða reglur sem taka til hópmálsókna á sviði samkeppnismála sérstaklega. Þá er þetta úrræði vel þekkt í bandarískum rétti undir heitinu „class action“ og í tengslum við viðurlagatengdar bætur sem dæmdar eru hópnum í heild. Úrræðið hefur verið mikið notað og haft þó nokkur áhrif á hegðun og virðingu sem fyrirtæki sýna gildandi lögum og reglum. Frumvarp þetta er samið með hliðsjón af löggjöf Norðurlandanna, einkum Danmerkur.

Þá hefur talsmaður neytenda í nokkurn tíma beitt sér fyrir innleiðingu á úrræði þessu ásamt því að Neytendastofa og Samkeppniseftirlitið hafa lýst yfir áhuga á að skoða þetta úrræði til þess að styrkja samkeppnis- og neytendamál hér á landi.

Eins og áður hefur komið fram er hópmálsókn talin heppilegt úrræði til þess að taka á einsleitum kröfum hóps manna sem veitir betri réttarfarslega meðferð en gildandi reglur í einkamálalögum gera. Einn fulltrúi hóps telst vera aðili málsins fyrir allan hópinn. Auk þessa verður úrræðið að teljast þjóðfélagslega hagkvæmt þar sem það treystir samtakamátt einstaklinga og hefur varnaðaráhrif fyrir fyrirtæki. Þá getur þetta úrræði verið sérstaklega hagkvæmt í tilfellum þegar mikill fjöldi neytenda á verðlitlar kröfur á hendur tilteknum aðila. Þá veitir frumvarpið möguleika á að opinber aðili höfði mál gegn viðkomandi brotlegu fyrirtæki til þess að sækja bætur vegna tjóns sem fjöldinn hefur orðið fyrir. Slíkt úrræði styður þannig framgang réttmætra krafna sem annars hefðu vegna kostnaðar ekki ratað til dómstóla.

Við athugun á löggjöf um hópmálsókn á Norðurlöndum kom í ljós að tvær leiðir eru mögulegar í því efni og eru ýmist báðar færar eða önnur. Annars vegar er svokölluð „opt-in“ leið, sem nefna mætti „innleið“, þar sem aðilar verða að sækjast eftir því að fá að vera með í hópmálsókn, og hins vegar svokölluð „opt-out“ leið eða „útleið“ þar sem aðilar verða að láta vita ef þeir hyggjast ekki taka þátt í hópmálsókn. Á öllum Norðurlöndunum nema Finnlandi gerir löggjöfin ráð fyrir því að báðar leiðirnar séu færar að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Í Danmörku og Svíþjóð er það umboðsmaður neytenda einn sem má fara með fyrirsvar fyrir hóp þegar „útleiðin“ er farin. Í Finnlandi einskorðast löggjöfin hins vegar við hina svokölluðu „innleið“ og er gert ráð fyrir því að umboðsmaður neytenda einn höfði slík hópmálsóknarmál. Ástæður þess að löggjöfin var höfð svo takmörkuð þar í landi voru einkum þær að ákveðin hræðsla var við fjölda hópmálsókna með ófyrirséðum kostnaði fyrir finnsk fyrirtæki.

Gríðarleg þjóðfélagsleg hagkvæmni er fyrirséð af því að heimila hópmálsóknir í stað þess að allir sem hagsmuni kunna að eiga af niðurstöðu máls fyrir dómstólum fari hver fyrir sig í mál. Þetta leiðir til hagræðis bæði í kerfinu þar sem minni tími fer í málarekstur og undirbúning og fyrir þátttakendur í málsókn er sparnaðurinn augljós af því að deila kostnaði við mál með mörgum öðrum sem eiga sömu hagsmuna að gæta. Þá má benda á forvarnaáhrif hópmálsókna sem réttarúrræðis, en það hefur sýnt sig þar sem úrræðið hefur verið tekið upp að virðing fyrir lögum hefur aukist. Ef búast má við hópmálsókn hafa menn tilhneigingu til að fylgja lögum frekar og nákvæmar eftir.

Talsmaður neytenda hefur bent á nokkur dæmi þar sem hópmálsókn hefur sárlega vantað hér á landi til að sækja bætur til neytenda. Má þar m.a. nefna hér mál frá því fyrir örfáum árum síðan sem kennt var við samráð olíufélaganna þar sem samkeppnisbrot voru framin gegn neytendum um árabil. Þá má einnig benda á úrskurð samgönguráðuneytis frá því í ágúst 2007 í máli nr. 11/2007, til staðfestingar ákvörðunar Neytendastofu varðandi gengishækkun pakkaferða, sem og ákvörðun Neytendastofu nr. 12/2006 frá því í október 2006 varðandi umsýsluþóknun fasteignasala. Þá mætti nefna ákvarðanir um seðilgjöld og ýmis mál sem varða öryggi neytenda og skaðsemisábyrgð, t.d. í tengslum við kampýlóbakter-sýkingar, og er þar vísað m.a. í dóm Hæstaréttar 2000: 8.12. (441/2000). Nýlegum dæmum má að sjálfsögðu bæta inn í þetta og má hér geta um mál peningamarkaðssjóðanna sem komu upp í kjölfar bankahrunsins, þar sem réttarúrræði það sem hér er verið að leggja til að verði innleitt í íslensk lög gæti komið að gagni.

Virðulegur forseti. Í greinargerð með frumvarpinu er einnig gerð grein fyrir einstökum greinum. Greinarnar eru reyndar aðeins tvær en í fyrri greininni eru margir stafliðir. Er gerð ítarleg grein fyrir þeim í athugasemdum við frumvarpið sem ég ætla ekki að rekja hér í þessari framsögu.

Ég legg til að að lokinni þessari umræðu verði málinu vísað til 2. umr. og hv. allsherjarnefndar.