138. löggjafarþing — 87. fundur,  8. mars 2010.

staðan að lokinni þjóðaratkvæðagreiðslu, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[15:25]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Frú forseti. Það er ástæða til að óska þjóðinni til hamingju með fyrstu þjóðaratkvæðagreiðslu lýðveldistímans og einnig niðurstöðu þeirrar atkvæðagreiðslu. Líkt og í síðustu þjóðaratkvæðagreiðslu sýndi hún eindreginn vilja þjóðarinnar. Nú getur enginn lengur velkst í vafa um það að Íslendingar vilja standa á rétti sínum og þeir ætlast til þess að stjórnvöld geri það fyrir þá.

Því hefur verið haldið fram að þrátt fyrir þetta hafi verið óljóst um hvað þessi atkvæðagreiðsla snerist. Ekkert gæti verið fjær sanni. Hún snerist um það að þjóðin felldi úr gildi lög sem Alþingi hafði sett og voru í gildi þar til þessi ákvörðun var tekin og eftir því sem forusta ríkisstjórnarinnar segir sjálf sparaði með því sjálfri sér a.m.k. tugi milljarða króna. Þrátt fyrir þetta leyfa menn sér áfram að reka þetta mál og umræðuna um það með endalausum útúrsnúningum og spuna, þeim spuna sem hefur einkennt líklega þessa ríkisstjórn frekar en nokkra aðra og þó sérstaklega í þessu máli.

Nú erum við farin að heyra aftur og aftur fullyrðingar út í loftið þess efnis að kostnaðurinn við biðina af þessu máli sé slíkur að hugsanlega jafnist það á við sparnaðinn. Það eru engin rök færð fyrir þessu enda er ekki með nokkru móti hægt að reikna sig nokkuð nálægt þeirri niðurstöðu. Raunar er mjög undarlegt hvernig menn geta leyft sér að halda því fram að það að borga ekki 40 milljarða kr. í vexti á ári til útlanda í erlendri mynt feli í sér kostnað. Það er tínt eitthvað til að hagvöxtur væri hugsanlega miklu meiri og atvinnuástandið væri hugsanlega betra ef búið væri að ganga frá Icesave.

Hvað sýna staðreyndirnar? Hvað sýna t.d. staðreyndirnar um meginröksemdafærslu ríkisstjórnarinnar, gengi krónunnar, sem mest áhersla var lögð á í fyrrasumar þegar Icesave var undirritað? Eftir undirritun Icesave-samningsins hins fyrsta hélt gengi krónunnar áfram að lækka verulega. En hvað hefur gerst með gengi krónunnar frá því að forsetinn synjaði lögunum staðfestingar? Það hefur styrkst jafnt og þétt og að sjálfsögðu hefur það gert það vegna þess að gengi krónunnar hangir meira en nokkuð annað saman við skuldir ríkisins, ég tala nú ekki um í erlendri mynt. Í þessu máli eins og öðrum ættum við því að láta af því að slá ryki í augu fólks, láta af því að ætla að kaupa okkur frá vandræðum til skemmri tíma litið, kaupa ímynd og halda að þannig megi leysa vandann, skoða plúsana og mínusana, raunverulegar staðreyndir. Staðreynd málsins er sú að það sparar Íslendingum ekki peninga að bæta gífurlegum upphæðum við skuldir ríkisins. Það styrkir ekki gengi krónunnar og það lagar að sjálfsögðu ekki skuldatryggingarálag ríkisins eins og við höfum séð frá því að forsetinn tók ákvörðun sína.

Hvað hefur svo Alistair Darling, fjármálaráðherra Bretlands, sagt núna? Hann hefur bent á það sem ég og stjórnarandstaðan höfum reynt að benda á hér mánuðum saman, að auðvitað þjóni það ekki hagsmunum Bretlands að leggja íslenskt efnahagslíf í rúst eða skaða það á nokkurn hátt, það séu sameiginlegir hagsmunir Breta og Íslendinga að Íslendingum farnist efnahagslega sem best. Hann segir að auðvitað verði Bretar að gefa eitthvað eftir, auðvitað verði menn að gefa Íslendingum tíma til að leysa úr þessu, auðvitað þurfi að slaka á vaxtakröfum o.s.frv.

Hvað segir forstjóri Alþjóðagjaldeyrissjóðsins? Hann segir: Það á ekki að taka þessi mál inn til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, þau eiga ekki að hafa áhrif á afgreiðslu mála hér. Engu að síður kemur enn þá forusta ríkisstjórnarinnar fram hér og heldur því fram að við verðum að klára málið strax til að fá fyrirgreiðslu frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Er því þá haldið fram hér að forstjóri hans fari með rangt mál? Ef ríkisstjórnin er þeirrar skoðunar, þarf þá ekki að taka það upp innan sjóðsins?

Að lokum nokkur orð um stöðu ríkisstjórnarinnar að þessu máli loknu, þjóðaratkvæðagreiðslunni. Meðan málið var til umræðu í þinginu margítrekuðum við að ef menn sæju að sér og mynduðu meiri hluta um hagsmuni þjóðarinnar í Icesave ætti það ekki að verða til þess að fella ríkisstjórnina. Hins vegar er algjörlega óásættanlegt að ráðherrar í ríkisstjórn skuli tala gegn þjóðaratkvæðagreiðslu, gegn fyrstu þjóðaratkvæðagreiðslu lýðveldissögunnar, og hvetja með aðgerðum sínum fólk til að sniðganga hana. Það er óásættanlegt og það er líka óásættanlegt hvernig þessi ríkisstjórn hefur haldið á hagsmunagæslu þjóðarinnar, ekki bara í Icesave-málinu heldur í öllum öðrum málum. Nú er svo komið að ríkisstjórn Íslands hefur birst út á við með þeim hætti að það stórskaðar trúverðugleika landsins. Þar liggur hin raunverulega efnahagslega áhætta Íslands, (Forseti hringir.) ekki í Icesave-málinu.