138. löggjafarþing — 87. fundur,  8. mars 2010.

staðan að lokinni þjóðaratkvæðagreiðslu, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[15:39]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Frú forseti. Hún var nokkuð merkileg, þessi helgi. Í fyrsta sinn í sögu lýðveldisins fékk fólkið tækifæri til að tjá hug sinn og afstöðu til málsins sem við köllum Icesave og hefur haft verulega þýðingu fyrir nútímann, en ekki síst fyrir framtíðina. Það var brotið blað í sögunni varðandi uppbyggingu lýðræðis og eflingu þess og ég spái því að þetta verði ekki síðasta þjóðaratkvæðagreiðslan á næstu árum. Ég vona að við hér inni berum gæfu til að setja almenna löggjöf um þjóðaratkvæðagreiðslur. Kjörsóknin var góð og niðurstaðan er eins skýr og hægt er að hugsa sér. Þjóðin hafnaði afgerandi þeim hörmungarsamningum sem hæstv. fjármálaráðherra ber alla ábyrgð á en virtist gera þá ábyrgð áðan nokkuð skilyrta. Ég undirstrika líka að það verður formlega að ógilda eða afturkalla þá samninga og þau lög sem voru samþykkt í ágúst sl.

Mér fannst hins vegar verra að fylgjast með ömurlegum yfirlýsingum forsætisráðherra í síðustu viku þar sem hún beinlínis talaði niður þetta sögulega tækifæri. Upp á framtíðina að gera eru þetta vond skilaboð. Þetta eru vond skilaboð frá forustumönnum ríkisstjórnarflokka sem fram til þessa, a.m.k. fyrir alþingiskosningar, hafa talið sig mjög lýðræðislega elskandi. Við Íslendingar höfum verið stolt yfir mikilli þátttöku í kosningum og þegar ekki er ólíklegt að þjóðaratkvæðagreiðslum fjölgi í framtíðinni má ekki tala þær niður. Það má ekki gera það.

Í dag er 8. mars. Það er baráttudagur kvenna. Ég óska okkur öllum til hamingju með daginn. Í Fréttablaðinu í dag segir Steinunn Gyðu- og Guðjónsdóttir, framkvæmdastýra UNIFEM á Íslandi, undir fyrirsögninni „Takk fyrir mig“, með leyfi forseta:

„Í dag langar mig að þakka fyrir það að ég hef kosningarrétt. […]. Ég vil þakka konunum sem á undan komu fyrir alla þeirra vinnu sem hefur skilað árangri fyrir mig og kynsystur mínar. […] Takk fyrir frelsið til að velja.“

Síðan kemur forsætisráðherra Íslands í síðustu viku og talar niður þetta sögulega tækifæri, fyrsta konan sem er forsætisráðherra. Ég held að baráttukonur fyrri alda fyrir auknum lýðréttindum hafi snúið sér í gröfinni yfir þessu framferði.

En hvað nú? Hvað skal gert að niðurstöðunni fenginni? Við verðum auðvitað að hlusta eftir samstöðu á forsendum þjóðarinnar og þá verður líka ríkisstjórnin að hlusta. Hún verður að skilja þessa sögulegu helgi. Fólkið kallar eftir samstöðu. Já, við viljum öll samstöðu en alls ekki fyrir hvað sem er. Við sjálfstæðismenn höfum ávallt sagt: Þetta mál snýst ekki um ríkisstjórnina. Það eru aðrir sem hafa sagt það. Gylfi Magnússon, Össur Skarphéðinsson, (Utanrrh.: Nei. Aldrei …) Þórunn Sveinbjarnardóttir, Sigmundur Ernir Rúnarsson, allir þessir hv. þingmenn hafa talað um að þetta mál muni hugsanlega kosta ríkisstjórnina, ekki við. Því ætlum við að halda áfram.

Auðvitað styrktist samningsstaða okkar Íslendinga um helgina og við verðum að segja það skýrt og skorinort en ekki (Forseti hringir.) fela það. Á næstu dögum, frú forseti, mun ráðast hvort ríkisstjórnin hafi raunverulega vilja til að nálgast Icesave-málið á forsendum þjóðarinnar en ekki ríkisstjórnarinnar. Því miður hefur það ekki alltaf farið saman. Að því hljótum við (Forseti hringir.) að vinna. Við hljótum öll að vinna að samstöðu.