138. löggjafarþing — 87. fundur,  8. mars 2010.

efnahagsaðgerðir.

[15:57]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Það er sérstakur dagur í dag, dagur sem við sem höfum barist fyrir auknu lýðræði og þjóðaratkvæðagreiðslu fögnum. Þjóðin er sigurvegari, og þeir sem eru talsmenn lýðræðisins. Ég vil samt segja um leið að í mínum huga eru engir taparar. Við verðum núna öll sem eitt að leita leiða til að ráða bót á þeim vanda sem blasir við. Hann er að mörgu leyti óleystur. Í mínum huga er samt staðan gjörbreytt. Fólkið og þjóðin sættir sig ekki við hvað sem er og samningar við Breta og Hollendinga kunna að dragast á langinn og við verðum líka að horfast í augu við að það er ekki víst að við náum samningum í bráð. Það getur með öðrum orðum slitnað upp úr samningaviðræðunum, sérstaklega ef Bretar og Hollendingar sýna sömu óbilgirni og þeir hafa sýnt að undanförnu.

Mig langar að spyrja hæstv. fjármálaráðherra í ljósi þessarar nýju stöðu: Hefur ríkisstjórnin sest niður og mótað aðgerðaáætlun um það hvernig eigi að bregðast við henni? Er ekki ljóst að við verðum með einum eða öðrum hætti að ráðast til að mynda í lækkun stýrivaxta? Verðum við ekki með einum eða öðrum hætti að koma til móts við heimilin í landinu? Ég spyr hæstv. fjármálaráðherra: Er ekki akkúrat núna tími til að Alþingi Íslendinga (Forseti hringir.) setjist niður og móti sér framtíðarsýn?