138. löggjafarþing — 87. fundur,  8. mars 2010.

endurskoðun á samstarfsáætlun við AGS.

[16:14]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið. Ég held að það sé mikilvægt í þeirri stöðu sem við erum í að við horfum ekki aðeins á eina leið, heldur skoðum aðra kosti sem við eigum í stöðunni til að vinna með til framtíðar. Þess vegna er mikilvægt að við reynum nú að glöggva okkur á þeim valkostum sem fram undan eru. Það er að mínu viti nokkuð augljóst að ef ekki næst sú endurskoðun sem við vonumst til að ná og hljótum að krefja um í samstarfi okkar við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn þarf að grípa til annarra ráðstafana í efnahagsmálum.

Ég vildi kannski spyrja hæstv. ráðherra að lokum hversu lengi hann telji að við getum beðið eftir því að fá endurskoðun. Hvenær þyrftum við þá í síðasta lagi að taka ákvörðun um að gera nýja efnahagsáætlun á nýjum forsendum ef svo ólánlega vill til að okkur takist ekki að halda áfram samstarfsáætlun okkar með Alþjóðagjaldeyrissjóðnum (Forseti hringir.) sem við hljótum öll að vona að takist?