138. löggjafarþing — 87. fundur,  8. mars 2010.

frumvarp um stjórn fiskveiða.

[16:21]
Horfa

Ólöf Nordal (S):

Frú forseti. Ég hygg að það hafi verið almennt á vettvangi sjávarútvegsins sem menn hafa haft áhyggjur af þessu skötuselsfrumvarpi, ekki einungis á vettvangi LÍÚ. Af því að hæstv. forsætisráðherra nefndi LÍÚ sérstaklega hygg ég að það hafi verið Samtök fiskvinnslustöðva og fleiri.

Það er alveg rétt hjá hæstv. forsætisráðherra, menn þurfa að gefa eftir þá tveir deila. Það er akkúrat það sem þetta snýst um. Það þurfa báðir aðilar að gefa eftir. Það er nefnilega það sem þetta snýst um.

Það er algjör óþarfi að fara af stað með þetta skötuselsfrumvarp í því árferði sem nú er. Það er ekkert kallað eftir þessu máli. Þetta fer þvert ofan í þær sáttaumleitanir sem eiga sér stað á vettvangi sjávarútvegsins. Ég skil ekki af hverju hæstv. ríkisstjórn og hæstv. forsætisráðherra með þann vanda sem þetta stöðugleikasamkomulag er í — við þurfum ekki að fara yfir það hvernig ástandið er á Suðurlandi vegna orkufrekra framkvæmda og slíkt. Þurfum við að auka vandann? Þurfum við alltaf að bæta meira og meira í og gera ósættið enn þá meira? Það er enginn að kalla eftir þessu skötuselsfrumvarpi og það væri réttast fyrir hæstv. ríkisstjórn (Forseti hringir.) að leggja þetta mál til hliðar.