138. löggjafarþing — 87. fundur,  8. mars 2010.

tillögur starfshóps um kynbundinn launamun.

[16:29]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Það verður undinn bráður bugur að því að dusta rykið af þessari skýrslu og koma henni fram í dagsljósið ef svo er að hún hafi ekki verið birt beinlínis. Ég man að mér var kynnt inntak hennar og ég veit að það er unnið á grundvelli ýmislegs sem þar kom fram. Það hefur verið reynt að gera það og hafa þetta mál á dagskrá. Menn hafa sérstaklega beint sjónum að því að meta áhrif efnahagsþrenginganna í þessu tilliti eins og mörgum öðrum. Það er t.d. gert í starfi velferðarvaktarinnar. Með ýmsum fleiri úrræðum sem í gangi eru er reynt að hafa kynjagleraugun á nefinu þegar lesið er í þá hluti alla saman, enda rétt og skylt. Þó að í sjálfu sér sé kannski hægt að segja að það sé dapurlegt að það þurfi efnahagssamdrátt til og sparnað í launaútgjöldum til að draga úr launamun er þó í sjálfu sér jákvætt að kjörunum sé jafnar skipt. Það hlýtur síðan að vera markmiðið að verja þann ávinning þegar hlutirnir taka að breytast og helst að tryggja með öllum tilteknum ráðum (Forseti hringir.) að sú þróun endurtaki sig ekki að launaskrið eða annað því um líkt leiti út í kynbundinn launamun.