138. löggjafarþing — 87. fundur,  8. mars 2010.

fyrirkomulag óundirbúinna fyrirspurna.

[16:40]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S):

Frú forseti. Það kann að vera að þessi fyrirspurnatími hafi farið fram hjá hv. þm. Þórunni Sveinbjarnardóttur því að í þessum hér hóf hv. þm. Höskuldur Þórhallsson málið. Síðast þegar ég vissi var hann ekki formaður Framsóknarflokksins, (Gripið fram í.) það var einungis í örskamma stund sem það var. [Hlátur í þingsal.] (Gripið fram í: Fyrrverandi.) Það verður þó að segja að þessi umræða endurspeglar eitt, það er alveg greinilegt að forseti hefur farið mjög illa með vald sitt hér á undanförnum mánuðum og missirum. Ef menn skoða hvernig skipt er í þennan ræðustól þegar kemur að fyrirspurnum til ráðherranna, eru þetta fyrst og síðast, og það er í langflestum tilvikum vissulega rétt, þingmenn stjórnarandstöðunnar, enda er það eðlilegt. Þetta er sá tími sem stjórnarandstaðan hefur til þess að eiga orðastað við framkvæmdarvaldið og ráðherrana. Mér finnst ég vera farinn að sjá oftar það sem hefur verið að gerast hér á undanförnum vikum, að hér komi upp stjórnarþingmenn með fyrirspurnir til ráðherra sem margar hverjar — það eru (Forseti hringir.) þó ekki allar þar undir settar — eru þess eðlis að sú umræða hefði betur farið fram inni á lokuðum fundi þingflokkanna eða að menn skrifuðu (Forseti hringir.) greinar um efni þeirra í blöðin. Það er mikilvægt að stjórnarandstaðan hafi tækifæri til þess að hlýða ráðherrunum yfir. (Forseti hringir.) Það er hluti af lýðræðinu sem við þurfum að virða.