138. löggjafarþing — 87. fundur,  8. mars 2010.

fyrirkomulag óundirbúinna fyrirspurna.

[16:43]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Frú forseti. Ég held að þessi umræða sýni þörfina á því að fara yfir þingsköpin með það að leiðarljósi, að endurskoða þennan dagskrárlið og jafnvel einnig dagskrárliðinn Störf þingsins. Það er alveg rétt, stjórnarþingmönnum er viss vorkunn, þeim gefast ekki oft tækifæri, ekki frekar en okkur stjórnarandstæðingum, til að koma hér með einhver mál sem þeim brenna í brjósti. Má ég leggja til að við skoðum það fyrirkomulag að í stað þess að hafa hér einhverja kynskipta umræðu, sem ég er alfarið á móti, að hafa fyrirspurnatíma stjórnarandstöðunnar til ráðherra eða fyrirspurnatíma stjórnarliða til ráðherra. Þá getum við verið viss um að við komumst hér að, annars, ef (Forseti hringir.) það eru óþægileg mál á dagskrá sem ríkisstjórnin vill ekki fá þangað, eru náttúrlega hæg heimatökin að hlaða stjórnarliðum á (Forseti hringir.) mælendaskrána þannig að fyrirspurnir komist ekki að. En ég veit að sjálfsögðu að hæstv. forseti mundi aldrei gera slíkt.