138. löggjafarþing — 87. fundur,  8. mars 2010.

fyrirkomulag óundirbúinna fyrirspurna.

[16:45]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F):

Frú forseti. Ég fagna þessari umræðu um fundarstjórn forseta, sem er nauðsynleg, og lýsi líka yfir mikilli ánægju með þann þverpólitíska vilja sem er í salnum um að breyta hér fundarsköpum á þá leið að bæði réttur þingmanna stjórnarinnar og okkar stjórnarandstæðinga verði aukinn og vægi þingsins í umræðunni sömuleiðis. Ég tek undir með hv. þm. Árna Þór Sigurðssyni um að við lengjum þennan lið, að við þingmenn gefum okkur meiri tíma í að spyrja hæstv. ráðherra spjörunum úr tvisvar í viku. Það mætti lengja þennan tíma úr hálftíma í klukkutíma, þá kæmust allir að, við yrðum væntanlega miklu sáttari og veittum þar af leiðandi framkvæmdarvaldinu meira aðhald en við gerum í dag. Umræðan yrði kannski jafnvel skemmtilegri fyrir vikið því að margir þingmenn eru hér í mikilli fýlu oftar en ekki yfir því að komast ekki að. Við þurfum að auka gleðina í þessum sal [Hlátur í þingsal.] þannig að ég mælist til þess, frú forseti, að hún beiti sér fyrir því (Forseti hringir.) að breyta þingsköpum í þessa veru.