138. löggjafarþing — 87. fundur,  8. mars 2010.

skipulagslög.

425. mál
[17:05]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það fer varla hjá því að ég fái smáhroll þegar ég heyri þau ummæli að ekki skuli standa á hv. umhverfisnefnd að afgreiða þetta mál, minnug þess hvernig fór með meðhöndlun þeirrar nefndar á náttúruverndaráætlun. Því langar mig að spyrja hæstv. ráðherra hvort það sé ekki algjörlega ljóst í huga ráðherrans að þetta mál fái þinglega meðferð, að hér verði óskað eftir umsögnum við þetta mál og að gestir verði kallaðir fyrir þingnefndina til að fara vel yfir þetta atriði. Hér er ekki um að ræða óbreytt frumvarp frá fyrri þingum, frekar en varðandi náttúruverndaráætlun.

Þá langar mig að beina annarri fyrirspurn til hæstv. ráðherra, um tímafresti sem umhverfisráðherra hefur til að staðfesta svæðisskipulag annars vegar og aðalskipulag hins vegar. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að umhverfisráðherra geri það, en hins vegar kemur ekkert fram um það hvaða tímafrestur ráðherranum er ætlaður. Í ljósi sögunnar, í ljósi þeirra nýlegu dæma sem við höfum, er gríðarlega mikilvægt að einhver ákvæði fjalli um þetta þannig að það sé ekki bara ótakmarkaður tími sem ráðuneytið, og þá ráðherrann, taki sér í að fara yfir mál sem sum hver eru umdeild og mörg þess eðlis að það er ljóst að það þarf að hraðar hendur. Þar sem verið er að ráðast í umfangsmiklar bætur, eins og sumir vilja orða það, á þessum lagabálki spyr ég hvers vegna slíkt ákvæði sé ekki inni.

Mig langar jafnframt að spyrja aðeins út í það sem kemur fram í athugasemdum á bls. 27–29 þar sem fjallað er um að Skipulagsstofnun staðfesti svæðis- og aðalskipulagstillögur, í stað umhverfisráðherra. Það segir beinlínis í greinargerð með frumvarpinu. Er það bara (Forseti hringir.) eitthvað sem gleymdist að taka út frá fyrri meðferð, er þetta einhver misskilningur?