138. löggjafarþing — 87. fundur,  8. mars 2010.

skipulagslög.

425. mál
[17:34]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Eins og ég kom inn á í ræðu minni hef ég ekki þaullesið frumvarpið þannig að ég hef ekki alveg náð að bera saman frumvarpið eins og það var áður og eins og það lítur út núna. Ég tel það fyrst og fremst til mikilla bóta að Skipulagsstofnun sé falið að afgreiða sérstaklega allar aðalskipulagsbreytingar og breytingar sem þar eru því að mér finnst ráðherra hafa tjáð skoðun sína og vald ráðherrans er fyrst og fremst fólgið í því að tékka á þessum formgöllum eins og Skipulagsstofnun og mér finnst að það eigi að hafa traust á slíkri stofnun svona almennt séð.

Ég væri því til í að taka þá umræðu um að Skipulagsstofnun sé alfarið falið það vald að staðfesta aðalskipulög og svæðisskipulög, sérstaklega þegar við verðum komin með landsskipulag. Ég get ljóstrað því upp hér, sem mun sjálfsagt koma fram í umræðu á seinni stigum, að ég hef ævinlega haft jákvæða sýn á landsskipulag ef það er ekki ofnotað, þ.e. ef menn samþætta þær áætlanir sem til eru í landinu en nota það ekki sem stjórntæki til að stöðva einstakar framkvæmdir. Það hefur aftur á móti verið ástæðan fyrir því að ég hef ekki getað stutt þetta vegna þess að það hefur alltaf komið upp að það er augljóst að ráðherrar á hverjum tíma hafa ætlað sér hið pólitíska vald til þess að stöðva framkvæmdir, það er ekki meiningin. En þegar við síðan erum komin með samþættar áætlanir hlýtur það að vera Skipulagsstofnun sem getur klárað hverja aðalskipulagsbreytingu án þess að leita þurfi til ráðherra og kannski væri það einfaldasta leiðin.