138. löggjafarþing — 87. fundur,  8. mars 2010.

skipulagslög.

425. mál
[17:37]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég ætla aðeins að nefna hér í sambandi við landsskipulagið, af því ég kom því kannski ekki að í ræðu minni og heldur ekki í fyrra andsvari — ef fyrir lægju einhverjar samþættar greinargerðir sem menn gætu tekið mið af hefðu til að mynda hér á höfuðborgarsvæðinu kannski legið fyrir einhverjar mótaðar hugmyndir um það hvað þyrfti að byggja margar íbúðir á næstu 10 árum á öllu svæðinu. Menn hefðu getað leitað til þess, þ.e. sveitarfélögin, og ekki farið í eins óhefta samkeppni hvert við annað, að bjóða fram lóðir og síðan að byggja allt of mikið. Ég held að það megi margt nota jákvætt í þessu landsskipulagi en það verður að varast ofstýringuna og auðvitað er alltaf áhætta fólgin í því eins og ég kom inn á.

Aðeins varðandi skörun þessara þátta sem ég nefndi þá er mikilvægt að það verði skoðað. Ég hvet umhverfisnefnd og eins ráðuneytið til þess að fara strax í þá skoðun, hafi það ekki verið hluti af þessu ferli, að velta fyrir sér með hvaða hætti bæði fasteignaskráin, þinglýsingar sýslumanna og jarðaskráin koma að skipulagsþættinum. Það rekst hvað á annars horn í þessum málum og endar því miður oft með því að það er svolítið óljóst hvaða eignir er búið að byggja hingað og þangað í hinum dreifðu byggðum og hefur bara verið þannig, annars þyrftu menn að hafa ansi miklar rannsóknarlögreglunefndir á stöðugri keyrslu út og suður til að fylgjast með því um allt land. Ég held að það gangi ekki. Það er hins vegar hægt, með því að nýta allar þessar skrár — ef þær yrðu samkeyranlegar með einum eða öðrum hætti, alla vega að það yrði skoðað — að minnka gallana sem þar eru í dag. (Forseti hringir.) En það er ekki orð um það hér.