138. löggjafarþing — 87. fundur,  8. mars 2010.

skipulagslög.

425. mál
[17:48]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S):

Virðulegi forseti. Eins og hér hefur komið fram er þetta ekki í sjálfu sér nýtt mál. Það er búið að gera nokkrar tilraunir til að endurskoða lög um skipulagsmál í landinu eins og hér var lýst ágætlega, bæði hjá hæstv. ráðherra og ekki síður hjá hv. formanni umhverfisnefndar. Hvað svo sem menn kunna að segja um innihaldið í þessum lagabálki öllum saman held ég að við getum öll verið sammála um það hvar svo sem við í flokki við stöndum að það er alveg nauðsynlegt að ljúka þessari vinnu, gera þær nauðsynlegu breytingar sem horfa til bóta í meðferð skipulagsmála. Meginágreiningurinn eins og hér hefur komið fram stóð um þá landsskipulagsstefnu sem sett var fram í frumvarpinu sem stöðvaðist í febrúar 2008. Þar lá ágreiningurinn og kannski hefur hann endurspeglast í þeirri staðreynd sem kom fram í ræðu hv. þm. Þórunnar Sveinbjarnardóttur áðan að allir líta á land sem auðlind, það gera allir. Mat fólks á því hvernig fara á með þessa sömu auðlind er hins vegar mjög mismunandi. Það verðum við einfaldlega að virða. Sumir standa í þeirri trú að stjórnvaldið á hinu háa Alþingi sé æðra öðrum, sem það vissulega er samkvæmt stjórnskipuninni, en ég legg áherslu á að sveitarstjórnirnar eru stjórnvald fólksins og standa íbúum landsins til muna nær en löggjafarsamkundan sjálf. Þess vegna hefur í gegnum tíðina áhersla Sambands íslenskra sveitarfélaga legið í þá veru að reyna að halda sem mestu af „valdi“ hjá viðkomandi sveitarfélögum um meðferð þeirra mála sem skipulagslögum er ætlað að taka á.

Hér hefur verið rætt töluvert um landsskipulagsstefnuna. Ég er þeirrar skoðunar að það sé orðið brýnt að koma einhverri slíkri stefnu til framkvæmda. Ég hef ekki rýnt þetta frumvarp nægilega vel til að geta borið það saman við fyrra frumvarp frá árinu 2008 en ég treysti því hins vegar að hæstv. umhverfisráðherra hafi unnið að þeim breytingum sem til bóta horfa og reynt að jafna þann ágreining sem uppi var og eyða misskilningi, ef um hann var að ræða, á milli sveitarfélaga landsins og þá umhverfisráðuneytisins og þeirra stofnana sem undir það heyra.

Það verður að gera kröfu til þess, eins og kemur fram í greinargerðinni með frumvarpinu, að fyrir liggi skýr fyrirmæli um samráð og kynningu við skipulagsáætlanir, gerð þeirra og meðferð. Sömu kröfur hljótum við að gera líka til landsskipulagsins að því leytinu til að þar verði m.a. lagt mat á áhrifin af þeim áherslum sem þar verða uppi. Ég vænti þess að það þurfi að búa það í eitthvert annað form en okkur birtist í frumvarpinu hér þannig að við fáum þá sýn til þessa tækis sem ætlunin er að beita, þess sem við köllum landsskipulag.

Umræðan hefur oft verið bundin því að eingöngu eigi að koma í veg fyrir að hægt sé að nýta einhverja virkjanakosti. Það er náttúrlega fjarri öllum sanni. Það er verið að ræða miklu stærri þætti. Við getum tekið samgöngur. Ef menn vilja get ég alveg farið út í ræðu um flugvöllinn í Reykjavík, en í mínum huga ættu m.a. landsskipulag og stefna ríkisvaldsins í málefnum flugsins og hvernig við viljum koma því fyrir að taka til þess hvernig tekið yrði á því. Ég vil líka nefna hvaða sýn ríkisvaldið á hverjum tíma hefði til byggðaþróunar í landinu. Landsskipulag hlýtur að taka til þeirra þátta. Ef við horfum til þess og þeirrar þróunar sem við höfum glímt við undanfarna áratugi hefði kannski í sjálfu sér mátt segja, ef við hefðum treyst okkur til, að þróunin hefði ekki orðið með þeim sama hætti og raun ber vitni, þ.e. við erum komin með þá stöðu upp í íslensku samfélagi að hér búa hátt í 70% þjóðarinnar á tiltölulega litlu landsvæði. Í mínum huga er það ekki skynsamleg nýting þeirra gæða sem Ísland býr yfir.

Ég vil segja það líka í ljósi ákvæðanna í greinargerðinni, og ég hef lesið hana frekast í því frumvarpi og þeim texta sem liggur fyrir, að Skipulagsstofnun er ætlað það hlutverk að sinna og hafa eftirlit með skipulagsákvörðunum sveitarfélaga, eins og þar stendur, tryggja samræmi þá á milli þeirra skipulagsáætlana sem verið er að vinna með hverju sinni og tryggja samræmi á milli þeirra líka og þessa svokallaða landsskipulags. Það er hins vegar ákveðið misræmi, a.m.k. eins og ég skil þann texta sem hér liggur fyrir, í greinargerðinni með frumvarpinu og ákvæðunum síðan í 29. gr. sem lúta að aðalskipulagi. Í greinargerðinni er sagt að Skipulagsstofnun sé ætlað það hlutverk að staðfesta m.a. aðalskipulagstillögurnar í stað umhverfisráðherra, þetta sé breyting sem verið er að gera. Það er tekið fram í greinargerðinni að þó sé „gert ráð fyrir staðfestingu umhverfisráðherra í ákveðnum tilvikum“.

Í 29. gr. eins og hún er orðuð hér er einfaldlega tiltekið að aðalskipulagið sé „háð samþykki sveitarstjórnar og staðfestingu umhverfisráðherra“. Þetta eru þættir sem við verðum að laga og sem við setjumst örugglega yfir, ekki síst í ljósi þeirra orða sem ég hef ástæðu til að treysta, hv. formaður nefndarinnar hefur lýst því yfir að nefndin gefi sér góðan tíma til að fara í gegnum þetta. Þó tek ég ekki þar með undir áform hennar um að við þurfum að eyða sumrinu í þetta verkefni. Ég held að það ætti í rauninni ekkert að þurfa að vefjast fyrir okkur að ljúka þessu verki fyrr ef við vinnum það á skynsemdarnótum og reynum að ná sem mestri sátt um innihaldið í frumvarpinu og væntanlegum lögum, með það að markmiði að koma á þeim nauðsynlegu breytingum sem full þörf er á að gera í þessum lagabálki öllum.

Ég hef rætt áður, m.a. þegar frumvarpið kom fram á árinu 2008, um nauðsyn þess fyrir okkur sem sýslum um þessa hluti, löggjafann, og erum að leggja þann ramma sem í lögunum á að búa, að átta okkur á því tímaferli sem felst í lagasetningunni og hvernig það kemur til með að verða. Í umræðu og vinnu sveitarstjórna ber oft við að þetta þyki mjög flókið og langt ferli, sömuleiðis hafa þeir sem hafa undir þetta stjórnvald að sækja, sveitarstjórnina og síðan ríkisvaldið, þá hjá Skipulagsstofnun og umhverfisráðuneytinu, kvartað undan því að þetta sé mjög tímafrekt. Að auki eru innbyggðir ákveðnir tímafrestir í athugasemdarferli og auglýsingaferli skipulagstillagna. Ég held að það sé nauðsynlegt fyrir okkur að reyna að teikna þetta upp og átta okkur á því hvort það sé yfir höfuð gerlegt eða æskilegt að reyna að stytta málsmeðferð, vinna tíma og gera þetta skipulegra. Ég tek undir að það sé líka nauðsynlegt að reyna að samræma verklagið á sem flestum stöðum sem að þessum málum lúta til að koma í veg fyrir tvíverknað en ekki síst til að spara tíma og amstur.

Ég vil nefna skipulagslýsingu sem ákvæði er um í frumvarpinu þar sem gert er ráð fyrir að hún sé útbúin í aðdraganda skipulagsgerðar. Ég tel að þetta sé mjög gott og þarft mál, og eigi að einfalda og auðvelda fólki að vinna og átta sig á því verki sem skipulagsgerðin er. Ég held að það sé full nauðsyn á því. Ég hef orðið var við það í störfum mínum á undanförnum mörgum árum að skilningur á skipulagsgerðinni er almennt mjög takmarkaður. Þetta hefur þótt mjög mikil sérfræðivinna og hefur verið lokað fyrir að því leytinu til fyrir almenningi, það sé flókið að setja sig inn í þetta o.s.frv. Það á ekki að þurfa að vera þannig með breyttu verklagi. Þetta er liður í því og ég fagna því sérstaklega. Það vakti hins vegar athygli mína við yfirlestur á þessu skjali öllu saman að þeir sem koma að þessari vinnu eru fremur einstaklingar sem vinna við framkvæmd skipulagsmála. Ég er á engan hátt að lasta það fólk. Fagþekkingin liggur þar en ég held að það sé líka mjög nauðsynlegt í því ferli sem tekur við hjá umhverfisnefnd að reyna að taka inn sjónarmið þeirra sem þurfa að beygja sig undir skipulagsákvæðin, þ.e. atvinnulíf, einstaklinga, félagasamtök o.s.frv., fá fleiri aðila úr þjóðfélaginu að til að segja álit sitt á þeim tillögum sem hér liggja fyrir.

Það hefur verið annað bitbein, ef maður getur sagt sem svo, í þessari umræðu sem lítillega hefur verið drepið á hér í dag og það lýtur að gjaldtöku fyrir skipulagsvinnuna. Eins og einhver góður maður orðaði það var samkvæmt mínum heimildum, bestum, í frumvarpinu áður en það kom í þá gerð sem okkur birtist gert ráð fyrir gjaldtökuheimild sveitarfélaga vegna skipulagsaðila, þ.e. að krefja framkvæmdaraðila um kostnað við skipulagsvinnuna þegar um leyfisskyldar framkvæmdir væri að ræða. Því er ekki til að dreifa hér, heldur er eingöngu í 38. gr. frumvarpsins ákvæði um að landeigandi eða framkvæmdaraðili geti á sinn kostnað gert tillögu að deiliskipulagi eða breytingu á því. Þó er þetta mjög takmörkuð heimild og nær ekki til annars en takmarkaðs eða tilfallandi kostnaðar, svo sem auglýsinga eða yfirferðar á skipulagstillögu.

Ég held að það sé hins vegar nauðsynlegt að fá einhvern botn í þetta. Hvort sem okkur líkar betur eða verr verða sveitarfélögin með einhverjum hætti að geta fjármagnað þá vinnu sem þeim er ætluð að lögum. Einnig snýst spurningin um það hvort sveitarfélögum sé ætlað að bera skipulagskostnað, m.a. vegna virkjana. Við getum litið til þess máls sem lýtur að virkjunum Landsvirkjunar og skipulagsgerð í því sambandi. Þar liggur fyrir vilji ríkisins, sem er eigandi að Landsvirkjun, til ákveðinna verkefna. Því mætti í rauninni túlka ákvörðun þess ágæta fyrirtækis svo að fyrir lægi samþykki ríkisins fyrir því verkefni sem þar var ætlunin að inna af höndum og ráðast í.

Hvað um það, ég held að það sé mjög nauðsynlegt að eyða þeirri óvissu sem liggur fyrir í þessum efnum um heimildir sveitarfélaga til að fá að taka gjald af þeim sem undir þau sækja að þessu leytinu til. Ég treysti því að við munum setjast yfir það og reyna að finna einhverja leið til að leiðbeina sveitarfélögum í þá veru að þau eigi þennan möguleika því að þetta er það verkfæri sem við höfum beitt. Ég sé enga ástæðu til að hverfa af þeirri braut. Við þurfum hins vegar að búa það í þannig ramma að það veki ekki upp spurningar eða ótta um að einhverjir óeðlilegir hagsmunir ráði för í þessum efnum.

Þetta ætla ég að láta duga að sinni við 1. umr. um frumvarpið. Eins og ég hef áður sagt treysti ég því að umhverfisnefnd leggi í þá nauðsynlegu vinnu sem ég tel að þurfi að inna af höndum til að skapa um þetta sátt. Þar undir er lykilatriði að hafa gott og mikið samráð við Samband íslenskra sveitarfélaga sem fulltrúa og málsvara sveitarfélaga landsins. Ég legg áherslu á að það þarf líka að draga af þessari vinnu og ná fram sjónarmiðum þeirra sem undir skipulagsyfirvöld sækja.