138. löggjafarþing — 87. fundur,  8. mars 2010.

skipulagslög.

425. mál
[18:02]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Frú forseti. Hingað inn er komið að nýju frumvarp til skipulagslaga. Ég viðurkenni það nú í upphafi, frú forseti, að ég hef ekki samlesið þetta frumvarp og það frumvarp sem áður var. Ég rak þó augun í það sem olli mér hvað mestu hugarangri við fyrri skipulagsdrög en það er landsskipulag sem heitir nú landsskipulagsstefna og er ekki jafnafgerandi í þessu frumvarpi og var í hinu fyrra, þar sem sveitarfélögunum bar lögum samkvæmt að taka mið af landsskipulagsáætlun eins og það hét þá. Nú er sagt, með leyfi forseta:

„Sveitarfélög skulu taka mið af landsskipulagsstefnu við gerð skipulagsáætlana eða breytinga á þeim og, eftir því sem við á, samræma þær landsskipulagsstefnu innan fjögurra ára frá samþykkt hennar.“

Þetta er ívið mildara fyrir sveitarfélögin en það sem áður var og ég tel ástæðu til þess að fagna þeim áfanga sem náðst hefur í því. Þó má ekki túlka orð mín þannig að landsskipulagsstefna sem slík sé ekki þörf en það er spurning hversu afdráttarlaus hún á að vera gagnvart sveitarfélögum. Ég tek undir það sem hér hefur verið sagt að það er sjálfsagt að í slíkri stefnu komi fram ákveðnar hugmyndir sem eru til hagsbóta fyrir landið í heild sinni, varðandi samgöngur, hugsanlega varðandi hafnarmannvirki og annað í þeim dúr. Einnig mætti skoða kannski færri og meiri framkvæmdir sem ég ætla ekki að nefna sérstaklega á þessu stigi.

Það vekur hins vegar undrun mína að enn þá er sveitarfélögum mismunað í þessu frumvarpi. Í 9. gr. frumvarpsins er talað um að sveitarstjórnir sem ákveða að gert verði svæðisskipulag skuli koma á fót nefndum o.s.frv. Ef við skoðum hins vegar 12. gr., að ég held, og síðan 22. gr. laganna er þar sú skylda sett á sveitarfélög höfuðborgarsvæðisins að þar skuli vera í gildi svæðisskipulag en ekki er gerð sú krafa á önnur sveitarfélög. Samt er í þessu frumvarpi sagt að fyrst sé það landsskipulagsstefnan, síðan svæðisskipulagið, þar næst komi aðalskipulagið og því næst deiliskipulag. Ef ekki er sett skylda á öll sveitarfélög að til sé svæðisskipulag er þetta að mínu mati eiginlega marklaust vegna þess að það sama hlýtur að þurfa að gilda gagnvart öllum sveitarfélögum í landinu.

Tökum sem dæmi sveitarfélög norðan og vestan höfuðborgarsvæðisins, við getum tekið Hvalfjarðarsveit, Akranes og Borgarbyggð. Þetta eru sveitarfélög sem liggja þétt hvert að öðru og ættu á nákvæmlega sama hátt og 22. gr. gerir ráð fyrir og segir beinlínis að það skuli vera svæðisskipulag á höfuðborgarsvæðinu — þetta er jafnbrýnt. Við getum tekið Akureyri og nærsveitir, hvort ekki sé brýnt að þar sé í gildi svæðisskipulag á sama hátt og á höfuðborgarsvæðinu. Á Austfjörðum — það er ekki bundið í lög að svo sé. Það kann að vera að sveitarfélög hafi ákveðið að gera það en það er ekki bundið í lög nema gagnvart höfuðborgarsvæðinu. Ég legg áherslu á það sem ég hef sagt fyrr að það er ekki hægt að setja lög með þessum hætti, setja ákveðinn píramída um hvaða skipulag heyrir undir annað skipulag, ef ekki er gætt jafnræðis gagnvart sveitarfélögum í landinu. Ég hvet því hv. umhverfisnefnd að taka þetta til skoðunar og skoða vandlega. Ég tel þetta ekki vera íþyngjandi fyrir sveitarfélög, stærri eða smærri, það á ekki að vera íþyngjandi fyrir sveitarfélög að koma sér saman um slíkt.

Það er hins vegar umhugsunarefni fyrir þá sem eru hér á höfuðborgarsvæðinu hvernig menn hafa farið með svæðisskipulagið og gert á því endalausar breytingartillögur með tilliti til þess að þær hafi verið svo lítilfjörlegar. Síðan kemur í ljós að margoft hafði það í för með sér hundruð ef ekki þúsundir nýrra íbúða sem nú standa auðar vítt og breitt á höfuðborgarsvæðinu. Það ætti því kannski líka að vera sett inn að menn fari varlega með breytingar á svæðisskipulaginu til þess að koma í veg fyrir að við lendum í áþekkum ógöngum og ég tel að við hér á höfuðborgarsvæðinu höfum komist í með þessu síbreytilega svæðisskipulagi eins og við lögðum það fram.

Í þriðja lagi, frú forseti, held ég að það þurfi að fara betur yfir og skoða frekar málsmeðferð. Í mínum huga þarf að skoða hvort við getum hugsanlega farið yfir og skoðað þessi tímamörk, hvort þau þurfi alltaf að vera svona löng og hvort við séum að ganga á rétt íbúanna. Hv. þm. Þórunn Sveinbjarnardóttir komst þannig að orði áðan að þessi lög væru fyrst og síðast fyrir íbúa þessa lands, þau eru ekki sérstaklega fyrir sveitarfélögin en sveitarfélögin væru náttúrlega ekki til ef það væri ekki til fólk. Ég held því að það megi skoða þessa málsmeðferð. Það á ekki að þurfa að draga úr gæðum, hvorki gerðar deiliskipulags né því að fólk hafi tækifæri til að koma með athugasemdir varðandi deiliskipulag, aðalskipulag eða svæðisskipulag, en mér finnst spurning hvort hægt sé að skoða þessi tímamörk.

Ég tek undir með hv. þm. Kristjáni Þór Júlíussyni. Ég held að það eigi líka að vera tímamörk á umhverfisráðuneytinu. Það eiga líka að vera tímamörk á Skipulagsstofnun um það hvenær og hvernig verkefnin eru afgreidd. Sá óskilgreindi tími sem oft hefur farið í að mál eru ekki afgreidd frá Skipulagsstofnun og síðar ekki afgreidd úr umhverfisráðuneytinu er skelfilegur að mörgu leyti fyrir sveitarfélögin. Við erum að setja lög og við erum að setja reglur. Við stöndum ekki við það sem stendur í lögunum en það eru engin viðurlög við því t.d. að Skipulagsstofnun tekur fleiri mánuði, sex, átta mánuði, í að afgreiða verkefni sem hugsanlega hefði átt að gera á þremur mánuðum. Umhverfisráðuneytið hefur tekið sér sex til átta mánuði í afgreiðslu ýmissa úrskurða en það hefði átt að taka miklu styttri tíma. Þetta er atriði sem við verðum að skoða og það þarf enginn, frú forseti, að reyna að segja mér að þessi endalausi lengdi frestur sé til þess að bæta málsmeðferð og koma öllum að. Það er eitthvað allt annað sem ræður för. Þetta er bara eitt verkefni sem við þurfum að ganga í, klára og lagfæra.

Frú forseti. Í fjórða lagi langar mig að gera að umtalsefni gjaldtöku vegna skipulags- og framkvæmdaleyfa. Það er ljóst að hér er verið að setja ákveðnar skorður. Það kann að vera í lagi og kann að vera gott. Ég er pínulítið hugsi yfir 5. gr. sem við töluðum um varðandi kostnað við deiliskipulag. Ég þekki það að ef land er í einkaeigu og það er samkomulag á milli sveitarfélagsins og landeigandans að landeigandinn beri kostnað af deiliskipulaginu og það er að sjálfsögðu í samræmi við aðalskipulag sveitarfélagsins og svæðisskipulag höfuðborgarsvæðisins — en það er einn þáttur hér inni. Nú mætti líta svo á, frú forseti, að ég sé að gæta hagsmuna landeigenda og ég er kannski að því að pínulitlu leyti. Ég þekki til þar sem landeigandi hefur kostað deiliskipulag og hugsanlega eru á landi hans fornminjar eða fornleifar en þá ber honum líka að kosta alla þá rannsókn. Hún hefur stundum hlaupið á tugum milljóna og upphæðin hefur farið, að því ég best veit, yfir 100 milljónir sem landeigandi varði í að skoða og leita eftir fornminjum og fornleifum. Ég velti því fyrir mér hvort og þá hvernig sveitarfélagið muni þurfa að gera slíkt hið sama, hvort menn hafi velt því fyrir sér vegna þessa og hvort menn séu að pæla í og velta fyrir sér varðandi þetta frumvarp til skipulagslaga bæði kostnaði landeigenda sem og sveitarfélaga hvað þetta varðar. Ég varpa því til hv. umhverfisnefndar að hún skoði með hvaða hætti sveitarfélög og einstaka landeigendur hafa þurft að bera kostnað af fornleifarannsóknum á sínu landi og velti fyrir sér hvort það eigi að skoða þann þátt og koma með einhverjum hætti til móts við hann vegna þeirra útgjalda sem þar verða til og/eða hvort hlutirnir eigi að vera eins og þeir eru.

Það er enn eitt í þessum skipulagslögum sem mig langar að nefna, frú forseti, og það er að samkvæmt aðalskipulagi setja sveitarfélögin inn íbúðasvæði, við setjum inn atvinnusvæði og sumir setja inn hina svokölluðu blönduðu byggð. Þar sem um er að ræða atvinnusvæði er alveg klárt að sveitarfélagið gerir ekki ráð fyrir íbúðabyggð, samþykkir ekki skráningu lögheimila á slíku svæði og heldur ekki íbúðir, og krefur eigendur atvinnuhúsnæðis um greiðslu fasteignagjalda samkvæmt því. Hins vegar ber svo við að til er nefnd sem heitir yfirfasteignamatsnefnd. Hafi einstaklingur kosið að innrétta íbúð á atvinnusvæði sem brýtur í bága við skipulag sveitarfélagsins er hann rukkaður um B-gjald, atvinnuhúsnæðisgjald. Hann hefur kosið að innrétta þar íbúð. Hann kallar til yfirfasteignamatsnefndina, hvar hún finnur eldhús, salerni, svefnherbergi og stofu og kannski einhverja aðra vistarveru. Samkvæmt yfirfasteignamatsnefnd er þetta íbúð, óháð því hvar hún er staðsett. Nefndin hefur það vald að breyta skipulagi sveitarfélagsins hvað það varðar, þarna sé lögleg íbúð og þess vegna eigi sveitarfélagið að innheimta af þessari íbúð á atvinnusvæðinu fasteignagjöld sem miðast við íbúðasvæði. Þetta stangast í öllu á við skipulagslög en samt er þetta gert. Eina leið sveitarfélagsins er að fara dómstólaleiðina gegn yfirfasteignamatsnefnd. Mér finnst það umhugsunarefni ef hægt er með slíkum úrskurði einum og sér að breyta gjaldtöku vegna fasteignarinnar af því að einhverjir hafi í blóra við skipulagslögin innréttað íbúð á svæði sem er ekki til íbúðabyggðar í krafti þess að þar er í fyrsta lagi klósett og eldhús. Mér finnst þetta umhugsunarefni inn í þessi skipulagslög.

Frú forseti. Þar sem ég hafði farið mikinn varðandi landsskipulagsáætlun í umræðu um fyrra frumvarpið sem var rætt hér á þinginu 2007–2009 verð ég að fagna þeim áfanga sem hér hefur náðst og komist samkomulag um eins og fram kemur í 10. gr. frumvarpsins og ég hvet hv. umhverfisnefnd til þess að taka til athugunar þá punkta sem ég hef komið með.