138. löggjafarþing — 87. fundur,  8. mars 2010.

skipulagslög.

425. mál
[18:17]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að óska hæstv. umhverfisráðherra til hamingju með að hafa lagt þetta mál fram í þinginu og ég vonast svo sannarlega til að málsmeðferðin verði til fyrirmyndar og vönduð.

Ég hjó eftir því í ræðu hv. þm. Þórunnar Sveinbjarnardóttur að henni fannst kröfur mínar varðandi málsmeðferðina kannski helst til miklar, og ég velti því fyrir mér þegar ég hlustaði á þessi orð hvort hún væri að fela mér það vald að ákveða að þingið starfaði í allt sumar. Ef svo er þakka ég fyrir traustið sem mér er sýnt varðandi það og ég tel mig alveg geta tekið þá ákvörðun þegar fram líða stundir.

Frú forseti. Ég tel einfaldlega mikilvægt að vandað verði til verka vegna þess að þetta er gríðarlega stór og mikilvægur málaflokkur. Í skipulagsmálunum verður að leggja mikinn þunga á það að reglur séu skýrar þannig að enginn vafi leiki á málsmeðferðinni í lögunum og það er væntanlega það sem verður kappkostað að gera í vönduðu starfi nefndarinnar. Ég hlakka til að fá að fylgjast með af hliðarlínunni hvernig það allt saman gengur.

Ég hef áður í andsvörum komið inn á nokkrar tillögur eða nokkur atriði sem ég tel rétt að nefndin skoði að breyta. Í fyrsta lagi að taka inn að nýju, sem var í fyrra frumvarpi, ákvæði varðandi kostnað, þ.e. rétt sveitarfélaga til að innheimta kostnað hjá þeim aðilum sem eru með tillögur sem koma inn á skipulag. Það er spurning hvers vegna þetta féll út og það er rétt að nefndin fari yfir það hvort ekki sé rétt að verða við boðaðri breytingartillögu hv. þm. Sigurðar Inga Jóhannssonar í þeim efnum.

Jafnframt hef ég komið inn á það fyrr í umræðunni að ég tel nauðsynlegt að settir séu inn frestir varðandi þann tíma sem gefinn er til staðfestingar á aðalskipulagi og svæðisskipulagi að sjálfsögðu líka og deiliskipulagi og þá á ég við staðfestingaraðilann, en eins og dæmin sanna liggur þetta ekki ljóst fyrir. Þess vegna er í rauninni engin leið þegar farið er í þá vegferð að breyta aðalskipulagi eða gera nýtt aðalskipulag, að áætla þann tíma sem kemur til með að fara í það. Þetta er ekki nógu skýrt og ég tel rétt þar sem verið er að fara í heildarendurskoðun að við leggjum í það að reyna að sníða helstu ágallana af þessu kerfi okkar og þetta er einn af þeim. Það er ekki bara vegna nýjustu dæma sem við þekkjum, varðandi aðalskipulag í Flóahreppi og breytingu á aðalskipulagi Skeiða- og Gnúpverjahrepps, sem ég segi þetta, sagan segir okkur einfaldlega að þetta er atriði sem verður að laga og það er engin ástæða til að sleppa því að hafa slíka fresti inni. Ég vonast til að það verði skoðað með opnum huga í nefndinni.

Ég hef aðeins minnst á það fyrr í umræðunni hvers vegna Skipulagsstofnun væri ekki falið það hlutverk að staðfesta svæðis- og aðalskipulagstillögur í stað umhverfisráðherra. Farið var vel yfir þetta í fyrra frumvarpi um breytingar á skipulagslögum og þar var röksemdin fyrir því að Skipulagsstofnun færi með þetta hlutverk sú að það væri einfaldari stjórnsýsla. Með þessum hætti væri það aðeins eitt stjórnvald sem kæmi að staðfestingu skipulagstillagna í stað tveggja og það var talið auka skilvirkni. Ég tel rétt að nefndin fari vel yfir það hvort ekki sé rétt að halda sig við þessar pælingar og þennan rökstuðning, þannig að það sé þá algjörlega klárt að það eru ekki nein pólitísk sjónarmið sem ráða því, sama hvort við erum sammála um að þetta hafi verið gert í fortíðinni eða ekki. Það er einfaldlega klárt og hafið yfir allan vafa að fagleg sjónarmið ráða því hver niðurstaðan er en ekki pólitísk sjónarmið. Ég tel einfaldlega að þetta umhverfi, skipulagsmálin, verði að vera í föstum farvegi og ég legg þunga áherslu á það.

Herra forseti. Ég fór líka aðeins yfir í fyrri athugasemdum mínum þá skörun sem er annars vegar á milli þeirra upplýsinga sem eru um landsskipulag, deiliskipulag og aðalskipulag hjá sveitarfélögunum og hins vegar þeirra gagna sem unnið er eftir í þinglýsingakerfi sýslumanns sem byggir á skrám Fasteignaskrár ríkisins eins og hún heitir nú á dögum. Þar er talsverð skörun á milli. Þetta eru ekki sömu kerfin og það er ljóst að t.d. aðalskipulagsupplýsingar liggja ekki inni í þeim kerfum. Ég hef unnið á öllum stigum þessa máls, bæði hjá sveitarfélögum og hjá Fasteignamati ríkisins, eins og það hét í þá daga, og þar m.a. við það að hanna og prufukeyra hið nýja þinglýsingakerfi Landskrár fasteigna sem er notað. Þar var alveg ljóst að hægt er að gera ýmislegt í þessum fræðum. Ég tel rétt að við skoðum þetta. Það er ekki víst að nefndin finni útfærslu til að taka þetta inn en ég tel rétt, fyrst verið er að fara í heildarendurskoðun, að þetta verði skoðað. Það getur vel verið að einhver vinna sé í gangi í stofnuninni um þetta atriði en maður hefur rekið sig á það í framkvæmdinni að þetta er ekki fullkomið. Við stöndum hins vegar í þeim sporum, Íslendingar, að eiga eitt fullkomnasta fasteignaskrárkerfi í heimi, það er horft til þess sem fyrirmyndar víða um heim og það er vel. Það er gott að við státum af mikilli þekkingu þarna og þess vegna er ekkert því til fyrirstöðu að við reynum að bæta það enn frekar og fullkomna verkið með því að samræma þessi gögn. Ég tel rétt að fara í það á þessu stigi máls.

Herra forseti. Ég tel í sjálfu ekki ástæðu til að vera með lengri umfjöllun að sinni um þetta málefni. Ég vona að góð sátt og samstaða verði um það með hvaða hætti verður fjallað um þetta mál í þinginu og það fái, ég ítreka ég það, vandaða málsmeðferð sem gæti verið hægt að skipuleggja á þann hátt að ekki þurfi að taka allt sumarið í það.