138. löggjafarþing — 87. fundur,  8. mars 2010.

mannvirki.

426. mál
[18:55]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. umhverfisráðherra svarið. Ég get alveg tekið undir að verið sé að styrkja neytendalöggjöfina. Ég hjó eftir því í umræðunni áðan í sambandi við sveitarfélögin og almenning að auðvitað væru engin sveitarfélög ef enginn væri almenningurinn þannig að sveitarfélögin sinna auðvitað þessari nærþjónustu.

Mér fannst ráðherrann kannski ekki svara því nægilega vel af hverju neytendaverndin yrði tryggari með því að yfirstofnun á vegum ríkisins hefði þetta inngrip á starfssvið byggingarfulltrúanna. Ég er ekki viss um að það sé endilega rétt að ríkisvaldið, og í þessu tilviki Byggingarstofnun, hafi þetta valdsvið og það eitt og sér tryggi meiri neytendavernd. Ég er ekki viss um það og mér finnst íhugunarvert fyrir nefndina að fara vel yfir það.

Á sama hátt má líka velta fyrir sér þeim flokkum sem áfram er gert ráð fyrir að séu undanþegnir byggingarleyfisgjöldum. Það er fjallað um fjölmörg fráveitumannvirki og slíkt, flutningskerfi hitaveitna og margt annað sem er neðan jarðar en við þekkjum líka stór mannvirki ofan jarðar eins og háspennulínur og slíkt sem maður gæti velt fyrir sér hvort ættu ekki að vera háð byggingarleyfi og hvort ekki ætti að fara fram frekari umfjöllun um hvernig þeim er háttað. Þau hafa langvarandi áhrif, sjónræn áhrif, en hugsanlega getur þetta líka snert fagleg atriði í sambandi við byggingu þeirra. Maður veltir þess vegna fyrir sér hvort það sé sjálfsagt mál að öll þessi mannvirki séu áfram undanþegin. Það er líka atriði sem nefndin þarf sjálfsagt að skoða. Það er nóg af verkefnum.