138. löggjafarþing — 88. fundur,  9. mars 2010.

störf þingsins.

[13:40]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að fara að ræða Icesave-málið en ég ætla að ræða undir þessum lið þá háalvarlegu stöðu sem er í öryggismálum sjómanna. Í 245 daga á ári er einungis ein þyrlusveit á vakt sem þýðir að þá er ekki hægt að bjarga sjómönnum sem lenda í vanda fyrir utan 20 mílur. Það þýðir líka að ef slys verða á tveimur stöðum í einu verður að velja á milli þess hverjum á að bjarga. Í 245 daga á ári er þetta svona. Að mínu mati er þetta gersamlega óviðunandi. Ég bendi líka á að núna í maílok rennur út leigusamningur á þeirri þriðju þyrlu sem Landhelgisgæslan hefur yfir að ráða sem gerir það að verkum að við gætum haft tvær þyrlusveitir á vakt í einu og brugðist þá við þessum vandræðum. Því verður að bregðast við þessum vandamálum strax.

Að mínu viti er hægt að skera niður á öllum öðrum stöðum en hjá þyrlusveit Landhelgisgæslunnar, á öllum öðrum sviðum hjá Landhelgisgæslunni. Ég velti því upp, virðulegi forseti, hvort virkilega þurfi slys til að þessu verði breytt því að þessu verður að breyta.

Ég spyr líka, virðulegi forseti: Mun Alþingi ekki örugglega grípa inn í þetta? Eða er veruleikafirringin í þessu þjóðfélagi orðin svo mikil að við getum haldið áfram að byggja tónlistarhús fyrir tugi milljarða á sama tíma og öryggismál sjómanna eru í þessum sporum? Ég spyr, virðulegi forseti.

Ég spyr líka (Forseti hringir.) alla hv. þingmenn: Hafa íslenskir sjómenn og fjölskyldur þeirra ekki fært nógu miklar fórnir?