138. löggjafarþing — 88. fundur,  9. mars 2010.

störf þingsins.

[13:44]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Ég þakka fyrirspyrjanda hv. þm. Kristjáni Þór Júlíussyni fyrir að taka þetta mál upp. Auðvitað verða hlutirnir að skoðast í samhengi og það skiptir gríðarlega miklu máli þegar við tökum ákvarðanir á Alþingi um ný lög að við reiknum til enda hvað það kostar og hvar við ætlum að taka þá peninga. Nú hef ég ekki skoðað sérstaklega þessi tvö mál sem hv. þingmaður nefndi, Byggingarstofnun eða Fjölmiðlastofu, en það er alveg rétt að þarna er um að ræða viðbótarstörf, að einhverju leyti með eigin tekjum. Það breytir svo sem ekki því að það verða útgjaldaliðir eftir sem áður fyrir a.m.k. þá sem nýta þjónustuna.

Ég ætla samt að vekja athygli á að þegar við ræðum þetta sem og það að við þurfum að glíma við gríðarlegan fjárlagahalla í ár, sem við þurfum jafnframt að glíma við áfram á næstum tveimur árum ef við ætlum að reyna að ná að breyta vaxtakostnaðinum yfir í velferðarmál, eins og er verkefni okkar, megum við samt ekki gleyma okkur í því að halda að með því að færa verkefnin út til einhverra annarra aðila, eins og sumir hafa gert tillögur um, sé einhver lausn. Það er ekki nóg að breyta heitinu í einhverja einkastofnun og borga svo í gegnum þá stofnun, í því felst enginn sparnaður. Ég held að við deilum þeirri skoðun. Við skulum bera það traust til Alþingis að það fari vel yfir þessi frumvörp og skoði þau með tilliti til fjárveitinga. Síðan fjallar fjárlaganefnd um málið. Við verðum að vanda okkur við að bæta ekki við á sama tíma og við þurfum að skera niður. Við þurfum auðvitað að forgangsraða.

Við fengum ágætisinnlegg frá hv. þm. Ásbirni Óttarssyni þar sem hann vekur athygli á að við erum að glíma við viðfangsefni eins og öryggi sjómanna. Það er okkar að forgangsraða og þá verðum við að meta það sem Alþingi. Það er ekki ríkisstjórnin sem velur það, fjárveitingavaldið á hv. Alþingi velur hvort það verður Byggingarstofnun, Fjölmiðlastofa, öryggismál sjómanna eða önnur velferðarmál sem skipta miklu máli. Þar hafa menn lagt upp með ákveðna línu og við skulum treysta því að ríkisstjórnin og Alþingi fylgi þeirri línu sem núverandi stjórnvöld hafa lagt fram. Það er að forgangsraða í þágu velferðarmála.