138. löggjafarþing — 88. fundur,  9. mars 2010.

störf þingsins.

[13:52]
Horfa

Róbert Marshall (Sf):

Frú forseti. Ég kveð mér hljóðs undir þessum lið til að ræða það sem mér finnst vera kall þjóðarinnar á þessum tímum eftir þjóðaratkvæðagreiðslu um Icesave sem er hin aukna krafa um samstarf stjórnar og stjórnarandstöðu í þinginu. Hættið að rífast, komið ykkur upp úr skotgröfunum og farið að vinna saman, er sagt við þingmenn hvar sem þeir koma. Þetta er kall sem ég held að Alþingi Íslendinga verði að hlusta á og hlýða á þeim tímum sem nú eru. Nú erum við í þeirri sögulegu stöðu að geta farið aftur inn í það mál sem kannski hefur klofið okkur mest á undanförnum mánuðum og unnið það þannig að mannsbragur sé á fyrir alla. (Gripið fram í: Hvað með þjóðstjórnina?)

Ég held að vinnan í áttina að betri vinnubrögðum byrji á þinginu og snúi að því hvernig við komum fram við hvert annað í þingsal þegar kemur að köllum úr hliðarsölum eða þingsalnum. Það er gríðarlega mikilvægt fyrir þjóðina að hún sjái að þvert á flokkslínur vinni fólk af kurteisi og yfirvegun að því sem er best fyrir Ísland. Ég trúi því að allir sem hér eru inni séu hingað komnir til þess. Það er mikið mannval á þingi sem getur nýst þjóðinni gríðarlega vel á öllum sviðum og ég tek þess vegna undir þá hugmynd sem m.a. hefur komið fram í máli hv. þm. Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, formanns Framsóknarflokksins, að hér verði afmörkuð ákveðin verkefni á milli stjórnar og stjórnarandstöðu og hafin vinna í þá átt að marka stefnu til framtíðar þannig að við getum haft á Íslandi frið og stöðugleika til lengri tíma. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)