138. löggjafarþing — 88. fundur,  9. mars 2010.

staða atvinnuveganna.

[14:07]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Nú eru rúmlega 13 mánuðir síðan núverandi ríkisstjórn tók við stjórnartaumunum, um það bil þrjú ár síðan Samfylkingin settist í ríkisstjórn. Áherslumál þessarar ríkisstjórnar voru þau að verja velferðina, slá skjaldborg um heimili og fyrirtæki.

Í ræðu iðnaðarráðherra á iðnþingi var ekki að finna þann baráttuanda gagnvart atvinnulífinu sem nauðsynlegur er við þær erfiðu aðstæður sem við búum við. Drjúgur tími fór í að skýra það út hversu allt mundi fara til betri vegar ef við gerðumst aðilar að Evrópusambandinu og að mikil þörf sé á heildstæðri atvinnuþróunarstefnu í landinu. Ég tek undir þetta með atvinnuþróunarstefnuna. Ég veit að hæstv. ráðherra gengur gott eitt til og ég er sannfærður um að hugur hennar stendur til meiri stórátaka en gengið hefur eftir í þessu ríkisstjórnarsamstarfi.

Ég hef tekið þátt í mörgum björgunaraðgerðum en aldrei þannig að þegar komið er að alvarlegu snjóflóði séu fyrstu viðbrögð þau að fara að velta fyrir sér snjóflóðavörnum Það er í hnotskurn það sem þessi ríkisstjórn er að gera. Hún tekur ekki á hinum raunverulegu vandamálum. Til að hér megi skapa þau 35 þúsund störf sem skapa þarf á næstu tíu árum þurfum við árlegan 5% hagvöxt til ársins 2015. Til að skapa þann hagvöxt þurfum við erlenda fjárfestingu, hér þurfum við orkufrek fyrirtæki sem skapa útflutningsverðmæti. Hver er staðan í dag 13 mánuðum eftir að þessi ríkisstjórn tók við völdum? Atvinnuleysi er þannig að hér ganga um 15 þúsund manns atvinnulausir. Það er fólksflótti frá landinu og við erum með stöðugleikasáttmála sem gengur orðið undir nafninu „kyrrstöðusáttmáli“. Þolinmæði aðila vinnumarkaðarins er á þrotum og má reikna með því ef áfram heldur sem horfir að stöðugleikasáttmálanum verði sagt upp. Sá samráðshópur sem skapaður var um breytingar í fiskveiðistjórnarkerfinu er að liðast í sundur. Sjávarútvegur er að stoppa þar sem útgerðir úti um allt land, litlar og meðalstórar, eru að stöðvast og fiskvinnslan um leið. Vandi heimilanna er óleystur enda hangir hann við endurreisn atvinnulífsins. Skattastefna skilar eingöngu aukinni svartri atvinnustarfsemi. Viðræðum við áhugasama orkukaupendur er lokið. Ríkisstjórn með umhverfisráðherra í fararbroddi leggur stein í götu framkvæmda og sendir misvísandi skilaboð.

Hvað er hægt að gera? Hér er hægt að grípa til aðgerða sem geta lyft grettistaki í atvinnulífinu. Það er hægt að setja af stað samgönguframkvæmdir fyrir um 8,4 milljarða sem eru tilbúnar. Það er hægt að fara í virkjanir við Búðarháls og Hverahlíð og það er nauðsynlegt vegna kísilmálms- og sólkísilverksmiðju við Þorlákshöfn og vegna stækkunar í Straumsvík. Það er hægt að auka kvóta á þorski. Það mundi skapa þúsundir starfa og skila sér margfalt inn í hagkerfið. Það verður að rjúfa kyrrstöðuna, við verðum að hjálpa okkur sjálf. Ríkisstjórnin virðist ekki hafa afl eða getu. Það er algert samstöðuleysi. Dramatískar yfirlýsingar koma frá fjármálaráðherra sem segir: Það stóð aldrei til að þetta yrði eitthvað sérstaklega auðvelt. Það eru margar erfiðar ákvarðanir, margar brekkur fram undan. Þá er kallað eftir víðtækri samstöðu, víðtæku samráði í þinginu og það hefur verið talað um það undir liðnum á undan og ég tek undir það.

En hver er reynsla atvinnulífsins af samráði við þessa ríkisstjórn? Hún kristallast í yfirlýsingum Samiðnar sem birtust í gær. Með stöðugleikasáttmálanum lýstu stéttarfélögin og samtök atvinnurekenda því yfir að þau væru reiðubúin að vinna með stjórnvöldum að nýrri sókn í atvinnumálum. Aðgerðaleysi og sundrung á Alþingi staðfestir að sáttmálinn er ekki tekinn alvarlega. Hvernig er með sáttmála almennings við þessa ríkisstjórn? Hvernig er með þann sáttmála sem þessir ríkisstjórnarflokkar gerðu við almenning í aðdraganda kosninga? Hefur hann haldið? Heldur betur ekki.

Það samráð sem kallað er eftir, virðulegi forseti, getur væntanlega ekki farið fram nema við ríkisstjórnarborðið. Það þarf aðra ríkisstjórn til að koma hér málum áfram. Það er alger upplausn í atvinnumálum landsmanna. Við sjáum það kristallast í ítrekuðum yfirlýsingum aðila vinnumarkaðarins. Við þurfum ekki annað en lesa það sem kemur frá ASÍ, frá Samtökum atvinnulífsins til að átta okkur á því hversu alvarleg staðan er. Yfirlýsing Samiðnar í gær dregur þetta ágætlega saman þar sem þeir segja að hér stefni allt í stórkostlega kreppu og mjög alvarlegt hrun að nýju.

Virðulegi forseti. Hér er allt að þróast á verri veg vegna getuleysis þessarar ríkisstjórnar. Kostnaður þjóðarinnar af aðgerðaleysi ríkisstjórnarinnar er að verða óbærilegur. Við sjáum engan framgang í því sem snýr að atvinnuvegunum og það eru stór mál í uppnámi. Það eru allar forsendur fyrir hendi í þessu samfélagi til að hér geti atvinnuástand orðið miklu betra með þeim jákvæðu áhrifum sem hefur á afkomu heimila og fyrirtækja. Allir möguleikar eru á að hafa í augsýn jákvæð teikn, aukinn hagvöxt og eflingu í útflutningi. Aðilar vinnumarkaðarins hafa gefið ríkisstjórninni falleinkunn og það sama hefur þjóðin gert. Það versta er að í andleysi sínu skilja forustumenn hennar ekki einu sinni þau skýru skilaboð. Þau skilja ekki (Gripið fram í.) einföld pólitísk skilaboð. Nú er þörf á samstilltu átaki um brýn verkefni. Það átak þarf að fara fram við ríkisstjórnarborðið. Til þess þarf nýja, sameiginlega ríkisstjórn.