138. löggjafarþing — 88. fundur,  9. mars 2010.

staða atvinnuveganna.

[14:23]
Horfa

Þór Saari (Hr):

Virðulegur forseti. Þetta er mikilvæg umræða og hefði verið ágætt ef hún hefði farið fram undir öðrum formerkjum en sem einhvers konar framboðsræða Sjálfstæðisflokksins. Hún þarf að vera málefnaleg. (Gripið fram í.)

Hvað varðar alla þessa erlendu fjárfestingu sem menn vilja fá inn í atvinnulífið leyfi ég mér að benda á að við höfum verið að bíða eftir erlendri fjárfestingu frá því að ég man eftir mér. Hún kemur bara þegar henni dettur í hug að koma, hún kemur ekki þegar Íslendingar heimta að hún komi. Það eru allir bankar og allar peningastofnanir hér full af peningum. Það sem þarf til að koma atvinnulífinu hér almennilega af stað er fyrst og fremst að lækka vexti almennilega, það mundi gera mjög mikið gagn.

Við búum núna við ódýrasta vinnuafl í allri Evrópu. Ef t.d. öllum fiski yrði landað á innanlandsmarkaði í staðinn fyrir að flytja hann út í gámum þar sem enginn veit hvað fæst fyrir hann, mundi skapast þar gríðarlega mikið af störfum. Við getum unnið okkur út úr þessu sjálf hér innan lands, við þurfum ekki alltaf að vera með einhverja drauma um erlenda fjárfestingu eða erlend álver. Álver eru mjög dýr og eru sóun á orku ef hugmyndin er að skapa mörg störf. Ef álverið í Helguvík yrði kálverið í Helguvík mundu vera þar 18 sinnum fleiri störf en í álverinu. (Gripið fram í.) Ef hugmyndin er að skapa störf með orkunýtingu skulum við reyna að hugsa málin málefnalega (Gripið fram í.) en ekki út frá algjörri sóun. (Gripið fram í.) Það má flytja það út.

Það þarf að huga að þessu. (Gripið fram í.) Það þarf að huga að Helguvík. Orkan er ekki til í álver í Helguvík, hún er bara ekki til, en samt eru menn enn þá að ræða þetta. Það á enn þá að byggja höfn hér sem Árni Sigfússon bæjarstjóri var búinn að lofa en nú á ríkið að kosta hana. Þessi umræða er öll í skötulíki. Það er hægt að afgreiða þessi mál á miklu betri og hagkvæmari hátt, sérstaklega með því að nota heimildir og reglugerðarbreytingar um löndun á öllum fiski í innlendum höfnun. Ég kem svo að öðrum atriðum í seinni ræðu minni.