138. löggjafarþing — 88. fundur,  9. mars 2010.

staða atvinnuveganna.

[14:25]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Frú forseti. Áðan talaði ráðherra sem heldur greinilega að hér sé allt bara í himnalagi, það er allt í stakasta lagi og allir Íslendingar hafa bara rangt fyrir sér. Og svo við höfum það alveg á hreinu eru það ekki bara við sjálfstæðismenn sem tölum svona, þannig að ráðherra komi ekki hingað upp í pontu og segi: Sjálfstæðismenn syngja hér sama gamla sönginn.

Ég nefni til að mynda Samiðn sem lýsir yfir miklum vonbrigðum með þróun efnahagsmála, aðgerðaleysi stjórnvalda og þá stöðnun sem blasir við í íslensku samfélagi. Í morgun heyrðum við í flokksfélaga hæstv. ráðherra Kristjáni Gunnarssyni, þeim skelegga formanni Starfsgreinasambandsins, þar sem hann tók undir þessi orð Samiðnar frá því í gær. Hann sagði m.a. að ráðaleysi hefði verið viðvarandi allt frá því að stöðugleikasáttmálinn var gerður. Hann sagði: Atvinnuleysið er löngu orðið óbærilegt.

Svo kemur ráðherra hingað upp í pontu og segir: Það er bara allt í fína lagi, fullt af störfum, rosa gaman. Hvar eru þessi störf fyrir þær vinnufúsu hendur, tíu þúsund manns sem misst hafa atvinnuna og miklu, miklu fleiri? Hvar eru þessi störf? Það þýðir ekki að vera alltaf með eitthvert orðagjálfur.

Hér á þingi í gær var rætt um samstöðu og er það vel. Það er gott að finna þann samstöðumátt sem er. Forsætisráðherra Íslands sagðist m.a. hlusta á hvatningu til samstöðu hér á þingi um helstu mál. Þá verður líka að sýna fram á að það sé hlustað. Við sjálfstæðismenn höfum ítrekað þverpóltíska nálgun til lausnar skuldavanda heimilanna, í síðustu viku, í lok janúar, fyrir jól og sl. haust, en ekkert svar hefur borist. Á meðan er verkstjórnaraðilinn, þ.e. ríkisstjórnin, ekki fær um að veita nein svör fyrir atvinnulífið. Það er sverðaglamur við ríkisstjórnarborðið, þau geta ekki komið sér saman um eitt eða neitt. Það litla sem kemur frá þeim eykur bara á óvissuna, ekki síst í okkar helstu atvinnugreinum, annars vegar á sviði orkunýtingarmála en ekki síður á sviði sjávarútvegsmála þar sem stefna ríkisstjórnarinnar hefur ekki gert neitt annað en að leiða (Forseti hringir.) óvissu inn í greinina og þar með enn meira atvinnuóöryggi fyrir alla landsmenn.

Komið ykkur að verki, (Forseti hringir.) hættið þessu orðagjálfri. Förum að vinna, gerum það saman.