138. löggjafarþing — 88. fundur,  9. mars 2010.

staða atvinnuveganna.

[14:28]
Horfa

Skúli Helgason (Sf):

Virðulegi forseti. Ríkisstjórnin hefur þegar gripið til ýmissa aðgerða í atvinnumálum eins og hæstv. iðnaðarráðherra rakti vel hér að framan. Við verðum þó að viðurkenna að á meðan atvinnuleysi er nærri 9% er ekki nóg að gert og meira þarf að koma til svo ástandið verði viðunandi. Ýmis verkefni eru fram undan en ég vil árétta að mikilvægasta eina aðgerðin er vitanlega sú að skapa hér forsendur fyrir jöfnum og góðum hagvexti, m.a. með áframhaldandi lækkun vaxta, eðlilegu fjármagnsstreymi inn í landið í formi fjárfestinga og lánsfjár til uppbyggingar atvinnulífsins. Þar er lausn Icesave-málsins lykilatriði. Það er mikið ábyrgðarleysi og lýsir miklu skilningsleysi á stöðu og framvindu efnahagsmála á Íslandi þegar menn segja að það mál geti bara beðið. Enginn vafi er á því að sá dráttur sem orðið hefur á niðurstöðu Icesave hefur þegar tafið endurreisn atvinnulífsins, jafnt hvað varðar erlendar fjárfestingar og lánveitingar m.a. til orkufyrirtækjanna.

Þó að Icesave-deilan sé óleyst hefur ýmislegt verið gert í atvinnumálum. Átak ríkisstjórnarinnar frá 6. mars 2009 hefur þegar skilað 2.400 störfum og yfir þúsund afleiddum störfum í ýmsum greinum. Ný áætlun stjórnvalda sem kynnt var í síðasta mánuði felur í sér fjölmargar aðgerðir til viðbótar sem örva munu atvinnusköpun í fjölmörgum atvinnugreinum. Í tengslum við stöðugleikasáttmálann er undirbúningur hafinn að byggingu nýs Landspítala. Það er fjárfesting upp á 30 milljarða sem skapa mun a.m.k. þrjú þúsund störf á byggingartímanum. Stórframkvæmdir í vegamálum eru fram undan, stjórnvöld hafa þegar forgangsraðað verkefnum og þar eru tvöföldun Suðurlandsvegar og tvöföldun Vesturlandsvegar efstar á blaði. Þessar vegabætur eru rúmlega 23 milljarða fjárfesting sem skapa mun 465 ársverk.

Fram undan er löngu tímabær uppbygging hjúkrunarheimila um land allt, 9 milljarða fjárfesting í 360 hjúkrunarrýmum í níu sveitarfélögum á næstu þremur árum, þetta eru 1.200 störf. Í orkugeiranum hafa menn hingað til einblínt á álver en áhugi erlendra fjárfesta í öðrum greinum, þar á meðal grænum iðnaði, hefur sjaldan verið meiri. En þar þurfum við hins vegar að marka skýra orkunýtingarstefnu sem tryggir nýjum greinum framboð á orku, sérstaklega hér á suðvesturhorninu.