138. löggjafarþing — 88. fundur,  9. mars 2010.

staða atvinnuveganna.

[14:32]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka fyrir þessa umræðu og málshefjanda fyrir að vekja máls á henni, hv. þm. Jóni Gunnarssyni. Við erum öll sammála um mikilvægi þess að tryggja fulla atvinnu í landinu. Gamalkunnugt orðtak minnir á að margt smátt gerir eitt stórt, en þó eru allt of margir við það heygarðshornið að aðeins með því að hugsa í stórum einingum megi gera stóra hluti, bara stóriðja geti leyst vanda okkar og skapað þeim þúsundum vinnu sem nú eru án hennar. Reynsla og staðreyndir tala hins vegar öðru máli og á hvort tveggja þurfum við að horfa. Við þurfum að horfa til reynslunnar og við þurfum að horfa til staðreyndanna.

Staðreyndirnar eru þær að frá því að fyrsta álverið var byggt á Íslandi hefur fólki á vinnumarkaði fjölgað um nálægt 85.000 manns. Megi rekja um 3.000 þessara starfa til álvera eru það um 3,75% af aukningu mannaflans frá 1970 og um 1,7% af vinnandi mönnum í landinu nú. Við erum ekki að tala þar um mikinn mannafla fyrir gríðarlegar fjárfestingar. Varðandi virðisaukann hefur það sýnt sig að hann er minni af stóriðju í höndum erlendra aðila en gerist í öðrum atvinnugreinum, sjávarútvegi, ferðaþjónustu eða öðrum þáttum sem nú er reynt að örva. Það kom ágætlega fram í máli hæstv. iðnaðarráðherra, Katrínar Júlíusdóttur, svo og í máli hv. þm. Lilju Rafneyjar Magnúsdóttur og Skúla Helgasonar, hvað ríkisstjórnin er að aðhafast.

Eitt vildi ég þó leggja höfuðáherslu á. Þegar við ræðum atvinnumálin ættum við fyrst og fremst að ræða vexti og fjármagnskostnað. Ég spyr: Hvernig stendur á því að á sama tíma og Seðlabankinn lækkar stýrivexti keyra bankarnir vaxtakostnaðinn upp? (Forseti hringir.) Þetta er alvarlegasta tilræðið við atvinnustarfsemi í landinu. (Gripið fram í: Heyr, heyr.) (Forseti hringir.) Ég kalla eftir því að þegar við ræðum um atvinnuuppbyggingu einblínum við á (Forseti hringir.) það að ná niður vaxtakostnaðinum. Út með verðtrygginguna, það er kominn tími til þess og að keyra vextina niður. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)