138. löggjafarþing — 88. fundur,  9. mars 2010.

fjölmiðlar.

423. mál
[15:22]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Það eru ákveðnir hlutir sem eru bara sjálfsagðir í pólitísku tilliti. Ég fagna því sérstaklega að við erum að skoða þetta heildstætt, prentmiðlarnir séu komnir inn með allri margmiðluninni. Það er jákvætt þannig að það sé ekki tekið frá hæstv. ráðherra.

Ég verð þó að segja eins og er að þegar gert er ráð fyrir fjórum mánuðum fyrir nefndina miðað við gildistöku laganna 1. maí og síðan að nefndin eigi að vera búin að skila 1. október spyr ég: Af hverju í ósköpunum var þá ekki búið að vinna þessa vinnu í vetur? Af hverju var ekki búið að vinna þessa vinnu áður en frumvarpið var lagt fyrir þingið þannig að við gætum tekið það heildstætt? Við erum að biðja um að tekið verði heildstætt á fjölmiðlunum. Mér finnst ekki hægt í pólitísku tilliti að skilja eftir eignarhald á fjölmiðlum því að það skiptir máli hvernig því er háttað.

Síðan er annað. Ég tel alveg ljóst að þvert á alla stjórnmálaflokka séu skiptar skoðanir um það hvort takmarka eigi hlut ríkisins á auglýsingamarkaði. Mín skoðun hefur alla tíð verið sú að það eigi að takmarka hlut Ríkisútvarpsins á markaði. (Forseti hringir.) Ég fékk því hins vegar ekki framgengt þegar ég var á sínum tíma ráðherra. Þess vegna tel ég mikilvægt að nefndin fái svigrúm til að fara yfir nákvæmlega þennan þátt til þess að auka fjölbreytni (Forseti hringir.) á markaði.