138. löggjafarþing — 88. fundur,  9. mars 2010.

fjölmiðlar.

423. mál
[15:25]
Horfa

Margrét Tryggvadóttir (Hr) (andsvar):

Frú forseti. Mér líður eins og ég sé komin í Íslandsmeistarakeppnina í hraðræðumennsku. Mér líst að mörgu leyti ágætlega á þetta frumvarp og er bara að byrja að kynna mér það, en ég hef þó efasemdir um 51. gr. sem fjallar um ábyrgð á ritefni. Samkvæmt henni bera efnisstjórar og/eða ábyrgðarmenn fjölmiðlaþjónustuveitenda ábyrgð á því efni sem miðlað er ef það er ekki sett fram undir nafni. Ef ég skil greinina rétt gerir hún ritstjórn vefmiðla ábyrga fyrir athugasemdum við efni vefmiðilsins sem er sett fram undir fölsku nafni eða ekki undir fullu nafni. Ég velti fyrir mér hreinlega hvort þetta sé í fyrsta lagi framkvæmanlegt og í öðru lagi hvort þetta sé skynsamlegt.

Það er auðvelt að flytja vefmiðla þannig að þeir hafi lögsögu einhvers staðar annars staðar og mig langar að fá viðbrögð hæstv. ráðherra við þessum vangaveltum mínum.