138. löggjafarþing — 88. fundur,  9. mars 2010.

fjölmiðlar.

423. mál
[15:26]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður bendir á mál sem ég veit að á vafalaust eftir að verða til umtalsverðrar umræðu. Þetta snýr að því að þeir vefmiðlar sem eru fjölmiðlar og leyfa athugasemdir beri ábyrgð á því efni sem birtist í athugasemdum nema það sé birt undir nafni, þeir beri ábyrgð á því ef nafnlaus athugasemd inniheldur eitthvert efni sem stangast jafnvel á við lög. Þetta á að sjálfsögðu ekki við um til að mynda persónulegar bloggsíður eða heimasíður samtaka eða aðrar sem eru ekki fjölmiðlar. Þetta er hins vegar eitt af því sem ég tel mikilvægt. Ég hef heyrt frá mörgum fjölmiðlum að þeim finnst mjög mikilvægt að fólk skrifi undir nafni. Það er nokkuð sem hefur verið gert í prentmiðlum, fólk skrifar undir eigin nafni, en þetta er að sjálfsögðu nokkuð sem þarf að ræða. Mín skoðun er sú að fólk eigi að koma fram undir nafni þegar það birtir efni í fjölmiðli sem telst vera fjölmiðill en svo getur fólk að sjálfsögðu haldið úti sínum persónulegu bloggsíðum nafnlausum og (Forseti hringir.) það varðar ekki þetta frumvarp.