138. löggjafarþing — 88. fundur,  9. mars 2010.

fjölmiðlar.

423. mál
[15:28]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tel alveg sjálfgefið að hv. menntamálanefnd muni ræða þessi sjónarmið. Það eru til aðrar leiðir til að fá útrás fyrir ýmis sjónarmið án þess að gefa upp nafn, til að mynda ýmiss konar spjallþræðir og annað slíkt sem teljast ekki vera fjölmiðlar. Með þessu er líka lögð fram ákveðin aðgreining á fjölmiðli sem ber þá ábyrgð á öllu því efni sem hann birtir. Við þekkjum það úr prentmiðlunum að þeir eru með nafnlaust efni, hvort sem það er Svarthöfði, Staksteinar eða ýmislegt efni sem er birt nafnlaust, en eigi að síður á ábyrgð viðkomandi ritstjórna. Þarna er lögð til ákveðin aðgreining á efni sem lýtur sem sagt ritstjórnarlegri ábyrgð á fjölmiðli og síðan er að sjálfsögðu hægt að skrifa nafnlaust á annan hátt. Eðlilega verður að ræða þetta, m.a. við hagsmunaaðila, og velta vöngum hreinlega yfir bæði siðferðilegum og félagsfræðilegum þáttum sem tengjast málinu. Ég þykist viss um að þetta eigi eftir að vekja heilmikla umræðu. Ég hef þegar fengið bréf þar sem þessu er annars vegar fagnað og hins vegar lýst yfir (Forseti hringir.) vonbrigðum þannig að það er alveg ljóst að það eru skiptar skoðanir um þetta. (Forseti hringir.) Ég lít svo á að þetta sé hluti af því að aðgreina fjölmiðla frá öðrum miðlum.