138. löggjafarþing — 88. fundur,  9. mars 2010.

fjölmiðlar.

423. mál
[15:34]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Frú forseti. Við ræðum hér nýtt frumvarp til laga um fjölmiðla og ég þakka hæstv. ráðherra fyrir yfirferð frumvarpsins. Frumvarpið er í 11 köflum og 64 greinum. Það er viðamikið. Það er að stórum hluta afar tæknilegt og byggir á tilskipun Evrópusambandsins og er fátt eitt um það að segja. Ég mun reyna að fara í gegnum þessa kafla á þeim stutta tíma sem ég hef. Það verður að segjast strax að það er margt gott í þessu frumvarpi og það er mjög gott að komið skuli fram frumvarp til laga sem nær yfir alla fjölmiðla. Ekki veitti af þar sem við erum með lög sem ná aftur til ársins 1956 og löngu tímabært að fella alla fjölmiðla undir einn hatt í einum lögum. Hins vegar gerir það verkefnið ívið viðameira og tæknilegra.

Ég verð samt að segja, frú forseti, sem menntaður íslenskufræðingur að það eru æðimörg orð í þessu blessaða frumvarpi, nýyrði sem eru algerir tungubrjótar. Leyfi ég mér að nefna, með leyfi forseta: „Fjölmiðlaþjónustuveitandi er einstaklingur eða lögaðli sem starfrækir fjölmiðil“ og „Viðskiptaorðsendingar eru texti, myndir og/eða hljóð sem er ætlað að vekja, beint eða óbeint, athygli á vörum, þjónustu …“ Ég veit ekki hvort hv. menntamálanefnd er til þess bær að reyna að finna betri og liprari orð yfir það sem hér er, en einhvern veginn læðist að manni sá grunur að þetta sé bein þýðing úr tilskipunum og þess vegna hafi menn kannski ekki eytt miklum tíma í nýyrðasmíð. Vissulega væri það þarft, frú forseti.

Ég velti líka fyrir mér markmiðum frumvarpsins, þrátt fyrir að IX. kafli fjalli um ábyrgð, viðurlög og fullnustu, af hverju ekki er tekið á ábyrgðinni í markmiðum þar sem talað er um að það eigi að stuðla að tjáningarfrelsi, rétti til upplýsinga, fjölmiðlalæsi, fjölbreytni og fjölræði og efla vernd neytenda á þeim vettvangi, og markmið laganna er jafnframt að koma á fót samræmdri löggjöf. Ég velti fyrir mér hvort ekki ætti að vera í markmiðsgreininni sjálfri eitthvað um ábyrgð fjölmiðlaþjónustuveitendanna, þó að sérstakur kafli fjalli um það, þ.e. IX. kafli.

Í kaflanum um gildissvið og lögsögu er farið yfir hverjir megi og hverjir geti verið fjölmiðlaþjónustuveitendur og hvernig þeim reglum skuli fram haldið. Það er sjálfsagt ekkert nema gott um það að segja

Í kafla III er fjallað um stjórnsýslu. Samkvæmt þeim kafla á að setja á laggirnar enn eina ríkisstofnunina. Með þessu frumvarpi erum við nú með þrjár stofur í farvatninu, þrjár nýjar ríkisstofnanir. Það eru Íslandsstofa og Byggingarstofnun og nú er það Fjölmiðlastofa. Ég verð að segja, frú forseti, að á þeim tíma þegar við erum vegna þess efnahagshruns og þess ástands sem íslenskt samfélag er í, með niðurskurð á öllum vígstöðvum, í velferðarmálum, í heilbrigðismálum, í skólamálum og atvinnulífið er á barmi gjaldþrots, setur ríkisstjórnin fram á fyrsta ári kjörtímabilsins tillögur um þrjár nýjar ríkisstofnanir. Aukin útgjöld til þriggja nýrra ríkisstofnana.

Frú forseti. Þetta er í mínum huga algerlega röng nálgun í því ástandi sem ríkir í landinu. Þetta er hins vegar pólitísk ákvörðun hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra og ríkisstjórnarinnar að fara fram með þessum hætti og ég verð að segja, frú forseti, að í því felst ótrúleg miðstýringarárátta. Hún kemur mér í sjálfu sér ekki á óvart. Ráðherra sagði áðan að stofna þyrfti Fjölmiðlastofu sem hefði algert sjálfstæði frá ráðherra. Það er töluvert vald sem Fjölmiðlastofa fær sem sjálfstæð stjórnsýslueining vegna þess að úrskurðarvald hennar er algert. Sá sem andmælir einhverju af hálfu Fjölmiðlastofu, það er ekki hægt fyrir þann aðila, þann fjölmiðlaþjónustuveitanda eða annan, að skjóta málinu til æðra stjórnvalds. Það stendur klárt og kvitt á blaðsíðu 6 í 7. gr.: „Ákvörðunum Fjölmiðlastofu samkvæmt lögum þessum verður ekki skotið til annarra stjórnvalda.“ Það er því mikið vald sem hæstv. ráðherra ákveður að fela þessari stofnun. Það er umhugsunarefni þegar maður lítur á 11. gr. og 12. gr. og svo aftur þá sérstöku stöðu sem Fjölmiðlastofa verður í að hún hefur ótakmarkað vald.

Frú forseti. Ég geri verulegar athugasemdir við stofnun nýrrar ríkisstofnunar hvort heldur er í þessu árferði eða öðru, ég held að það hljóti að vera markmið okkar á næstu árum að draga úr því bákni sem ríkið er orðið, og ég dreg ekki dul á það, frú forseti, þannig að ekki þurfi að núa mér því um nasir í andsvörum eða ræðum á eftir, að minn flokkur á stóran þátt í þeirri útþenslu og hefði betur farið öðruvísi að. Það eitt bætir ekki þá stöðu að auka þurfi við báknið eins og hér er til lagt.

Frú forseti. Síðan kemur kafli IV, um skráningu fjölmiðla, leyfi o.s.frv. Ég held að það sé í sjálfu sér hið besta mál. Fjölmiðlar eiga að þurfa heimild til að fá að starfa, þeir hafa það svo sem í dag og það er hið besta mál. Síðan komum við að réttindum og skyldum fjölmiðlaþjónustuveitenda. Sá kafli er töluvert fyrirferðarmikill og mig langar aðeins að gera athugasemdir við nokkrar greinar. Ég vil fyrst lýsa yfir að ég fagna 25. gr. sem er um vernd heimildarmanna. Ég held að það sé afar nauðsynlegt fyrir fjölmiðla að geta alltaf verndað heimildarmenn sína og hafa þann rétt og hann er nú bundinn í lögum. Ég fagna þeirri grein sérstaklega.

Mér finnst hins vegar eins og að 26. gr. og 27. gr. geti hugsanlega stangast á, vegna þess að í 26. gr. er talað um að fjölmiðlaþjónustuveitendur eigi að halda í heiðri lýðræðislegar grundvallarreglur og virða tjáningarfrelsi o.s.frv. Í lok þeirrar greinar stendur hins vegar: „Þó skal fjölmiðlaþjónustuveitanda sem hefur þann yfirlýsta tilgang að beita sér fyrir tilteknum málstað vera óskylt að miðla efni sem gengur í berhögg við stefnu miðilsins.“

Því spyr ég: Stangast síðasta setningin í 26. gr. ekki á við 27. gr. þar sem bann er við hatursáróðri? Vegna þess að kjósi miðill að túlka eina ákveðna stjórnmálaskoðun per se, tökum sem dæmi eins og við stöndum frammi fyrir nú að það verði settir á stofn tveir miðlar, annar þeirra hefur andstöðu við Evrópusambandið að markmiði og hinn verður með, er alveg ljóst að þessar tvær ólíku fylkingar munu bítast og geta bitist hatrammlega og farið gegn hvor annarri. Ég hef aðeins efasemdir um að þá stangist þessar tvær greinar á, síðasta setningin í 26. gr. og svo 27. gr. Ekki má skilja orð mín svo að ég sé á móti því að slíkar fylkingar geti sett af stað fjölmiðil, hvort heldur er sjónvarp, útvarp eða dagblöð, aldeilis ekki, en það þarf að vera klárt í lögum með hvaða hætti slíkar fylkingar geta unnið.

Ég fagna líka 28. gr. En engu að síður verð ég að viðurkenna, frú forseti, að það er bara andstætt minni lífsskoðun að láta segja mér svona fyrir verkum, jafnt sem foreldri og ömmu, að það sé bundið í lög með hvaða hætti sjónvarp t.d. beitir auglýsingum eða einhverju þess háttar, að foreldrum og öðrum uppalendum skuli ekki treyst til að vita það sjálfir og hafa sjálfir vit fyrir börnum sínum, a.m.k. upp að ákveðnum aldri. Ég velti því fyrir mér og það væri fróðlegt að vita, eins og segir í b-lið 28. gr.: „Heimilt er að miðla efni í línulegri dagskrá“ — og þá er væntanlega átt við bæði myndmiðlun og hljóðmiðlun að útsendingin nái ekki til barna.“— „sem ekki er talið við hæfi barna að því gefnu að tryggt sé með viðeigandi tæknilegum ráðstöfunum að útsendingin nái ekki til barna.“ Hvernig er þetta framkvæmanlegt? Það væri ágætt að heyra það.

Síðan er í 33. gr. fjallað um framboð myndefnis. Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra um það. Nú skil ég það svo að ýmsar sjónvarpsstöðvar geti hafið útsendingar hér á landi samkvæmt 4. gr. í II. kafla. Kjósi t.d. sjónvarpsstöðin Al Jazeera að setja á laggirnar myndstöð á Íslandi, er þá skylt að meiri hluta útsendingartíma hennar sé varið í dagskrárefni frá Evrópu? Meiri hluta stendur hér. Svo kemur grein um dagskrárefni frá sjálfstæðum framleiðendum og þar stendur að sjá skuli til þess að minnst 10% af útsendingartíma eða minnst 10% af árlegu dagskrárfé sé varið til evrópskra verka. Ég spyr hæstv. ráðherra, svo það fari ekki á milli mála ef slíkar stöðvar æskja þess að koma hingað og setja upp varanlega starfsstöð: Hvar og hvernig munu þessar tvær greinar virka gagnvart þeim?

Í VI. kafla er komið að því sem snýr að viðskiptaorðsendingum og fjarsölu. Þessi tungubrjótur, viðskiptaorðsendingar, verður að fá nýtt heiti. Og þá verð ég að segja, frú forseti, að d-liður á bls. 16 í Almennum meginreglum vekur eiginlega furðu: „Viðskiptaorðsendingar og fjarsala skulu ekki: d. hvetja til hegðunar sem er í áberandi andstöðu við umhverfisvernd.“ Ég velti aðeins fyrir mér við hvað er eiginlega átt? Er það að ekki sé sýnt þegar við erum á ferðalögum og hendum Pepsí-dósum o.s.frv. sem er kannski svona hluti af mannlegri reisn að gera ekki? Ég velti því fyrir mér. Mér finnst þetta stundum vera, frú forseti, svona hálfgerð sýndarmennska.

Og alveg á sama hátt, frú forseti, í 39. gr.: „Varan eða þjónustan sem um ræðir skal ekki sett fram á óþarflega áberandi hátt.“ Hver á að skera úr um það, hæstv. menntamálaráðherra og frú forseti, hvað er óþarflega áberandi háttur? Bara svo menn aðeins átti sig á hvað verið er að setja inn í lög, frú forseti. (Forseti hringir.) En ég mun koma aftur í fimm mínútna ræðu og bið um að verða sett á mælendaskrá til að geta lokið því sem ég ætlaði að segja, frú forseti.