138. löggjafarþing — 88. fundur,  9. mars 2010.

fjölmiðlar.

423. mál
[16:00]
Horfa

Róbert Marshall (Sf):

Frú forseti. Ég vil koma að nokkrum hugleiðingum mínum varðandi það mikla frumvarp sem hér liggur fyrir til 1. umr. í þinginu. Þetta er mikilvæg lagasetning sem hnígur að hinum mikilvægari stoðum hvers lýðræðissamfélags, lagarammi um sjálfa fjölmiðlana, fjórða valdið. Það hefur oft verið meiri áhugi á lagasetningu varðandi fjölmiðla en kannski má sjá á þingsal einmitt núna. Hér hefur sérstaklega verið fjallað um að ekki sé tekið á eignarhaldi fjölmiðla með svipuðum hætti og gert var á því herrans ári 2004 þegar stjórnvöld freistuðu þess að setja einhverja þrengstu löggjöf um fjölmiðla sem þá fyrirfannst í allri Evrópu. Að mínu mati er lykilatriði þegar kemur að eignarhaldi fjölmiðla að almenn samkeppnislög gildi en það sé opið og skýrt hverjir séu eigendur fjölmiðla og að í þeim tilfellum þegar um er að ræða fréttamiðla sé þess getið í hvert sinn sem þeir fjalla um málefni sem varða hagsmuni sinna eigenda.

Ég vil grípa sérstaklega niður í það sem lýtur að réttindum og skyldum fjölmiðlaþjónustuveitenda, eins og þeir eru nefndir, þó að hér sé um miklu stærra frumvarp að ræða sem lýtur að mörgum þáttum og margbreytileika þess fjölmiðlaumhverfis sem nútímatækni býður upp á og þess sem framtíðin ber í skauti sér. Hér er fjallað sérstaklega um réttindi og skyldur fjölmiðlaþjónustuveitenda. Í 24. gr. sem fjallar um ritstjórnarlegt sjálfstæði er fjallað um að settar skuli reglur um ritstjórnarlegt sjálfstæði þeirra starfsmanna sem sinna fréttum og fréttatengdu efni og að slíkar reglur skuli samdar í samráði við viðkomandi starfsmenn og eftir atvikum starfsmannafélag þeirra. Þessu er ég mjög hlynntur og vil benda á að t.d. mættu þessar reglur vísa í siðareglur blaðamanna þar sem fjallað er um vönduð vinnubrögð, að leitað sé mismunandi sjónarmiða og að fjölmiðlarnir móti sér sérstaklega reglur um nafnbirtingu og myndbirtingar. Án þess að það sé mín skoðun að með sérstökum hætti sé bundið í lög hvernig slíkar reglur séu tel ég afar mikilvægt að fjölmiðlar vinni eftir slíkum reglum og þær séu aðgengilegar almenningi, þeim sem um er fjallað.

Í þessum reglum sem fjallað er um í 24. gr. er líka talað um að þær lúti að starfsháttum sem tryggja ritstjórnarlegt sjálfstæði viðkomandi efnisstjóra og blaða- og fréttamanna gagnvart eigendum fjölmiðlaþjónustuveitandans og einnig skilyrði áminningar og brottvikningar viðkomandi efnisstjóra og blaða- og fréttamanna. Nákvæmlega á þeim tímum sem við lifum nú, þar sem fjölmiðlar eru efnahagslega ekki sérstaklega vel settir, reynir á sjálfstæði ritstjórna gagnvart eigendum sínum þegar hagsmunir auglýsingadeildar og ritstjórnar fara ekki saman. Mesta hættan er á ferðinni þegar fjölmiðill er rekstrarlega brothættur og þá er mest nauðsyn á því að reistir séu rammgerðir Kínamúrar á milli þessara ólíku deilda. Mér líst mjög vel á að stofnað sé til sérstakrar Fjölmiðlastofu til að staðfesta að slíkar reglur hafi verið samdar og endurskoðaðar.

Ég vil líka fagna því að í 25. gr. sé tekið sérstaklega á vernd heimildarmanna þar sem til þess er tekið að starfsmönnum fjölmiðlaþjónustuveitenda er óheimilt að upplýsa hver sé heimildarmaður að grein, riti, frásögn, tilkynningu eða öðru efni, hvort sem það hefur birst eða ekki, hafi heimildarmaður eða höfundur óskað nafnleyndar. Starfsmönnum fjölmiðlaþjónustuveitanda er jafnframt óheimilt að láta af hendi gögn sem hafa að geyma upplýsingar um heimildarmann eða höfund í slíkum tilvikum. Ég tel líka mjög mikilvægt að í þessum texta sé hnykkt á því að trúnaðarsamband blaðamanns og heimildarmanns er tvíhliða samband sem verður aðeins komið á með því að báðir samþykki að það sé í gangi. Það er ekki nóg að viðmælandi blaðamanns óski eftir því, sérstaklega sé til hans leitað í krafti þess að hann gegni opinberri stöðu eða stöðu í fyrirtæki, þá getur hann ekki með einhliða hætti lýst yfir því að hann sé leynilegur heimildarmaður. Það er mjög mikilvægt að því sé haldið til haga. Í 26. gr. er vísað í að fjölmiðlar skuli í starfi sínu halda í heiðri lýðræðislegum grundvallarreglum og virða tjáningarfrelsi.

Í þessu samhengi vil ég líka minna á það sem ég hef ekki komið auga á í þessu frumvarpi en teldi mikilvægt að væri tekið á, þótt það þurfi kannski ekki að vera endilega í þessu frumvarpi, en það er mikilvægi héraðsfréttablaða og með hvaða hætti er hægt að tryggja rekstur þeirra. Þau eru mjög oft límið í samfélögum á landsbyggðinni og skipta gríðarlegu máli fyrir bæjarfélög, mikilvægi lýðræðisumræðu og ekki síst í að miðla upplýsingum um það sem er á döfinni hverju sinni. Einhvers konar opinber aðkoma að slíkum fjölmiðlum, hvort sem það væri í gegnum Fjölmiðlastofu eða annað, gæti tryggt að mismunandi grundvallarreglum og mismunandi sjónarmiðum, að þetta séu hlutlausir fjölmiðlar o.s.frv., væri í meira mæli en nú haldið í heiðri, sérstaklega ef þeir þiggja með einhverjum hætti opinbera aðstoð. Án þess að ég leggi beinlínis til að það verði gert í þessu frumvarpi vil ég að því sé haldið til haga að skoðun mín er sú að ríkið eigi, hvort sem er í gegnum Byggðastofnun eða þessa Fjölmiðlastofu, að tryggja umhverfi þessara héraðsfréttablaða sem eru mjög mikilvæg í hinum dreifðari byggðum.

Ég hef aðallega farið yfir V. kafla þar sem fjallað er um réttindi og skyldur. Ég vil síðast geta þess sem ég hef þó kannski mestar athugasemdir við og mestar áhyggjur af í þessu frumvarpi en það er hinn svokallaði réttur til andsvara sem fjallað er um í 36. gr. Þar segir, með leyfi forseta:

„Aðili sem telur að lögmætir hagsmunir hans, einkum æra hans eða orðspor, hafi beðið tjón af því að rangt hafi verið farið með staðreyndir í fjölmiðli hefur rétt til andsvara í viðkomandi miðli eða til annarra jafngildra úrræða. Andsvör skulu birt eða þeim miðlað þegar eftir að rök hafa verið færð fyrir beiðni þar um. Þegar um prentmiðil eða rafrænan ritmiðil er að ræða skal birta andsvör með sama hætti og annað efni viðkomandi miðils og á þeim stað að eftir verði tekið og þegar um hljóð- eða myndmiðil er að ræða skal andsvörum miðlað á þeim tíma þegar hlustun eða áhorf er mest og með þeim hætti sem best hæfir miðlun þess efnis er beiðnin tekur til. Fjölmiðlaþjónustuveitanda er óheimilt að óska eftir greiðslu fyrir birtingu eða miðlun andsvars.“

Það er í sjálfu sér mjög eðlileg vinnuregla á hverjum fjölmiðli fyrir sig að réttur málsaðila til andsvara sé virtur, eða þeirra sem um er fjallað, en það er hins vegar alltaf ritstjórnarleg ákvörðun hverju sinni og ákvörðun ritstjórnarinnar hvort um lögmæta hagsmuni, æru eða orðspor sé að ræða. Það verður einhver að meta það. Sem betur fer höfum við búið að því á Íslandi að á öllum helstu fjölmiðlum okkar er saman söfnuð áratuga reynsla í því að fjalla um málefni líðandi stundar. Það eru alltaf mismunandi skoðanir á því hvenær um er að ræða lögmæta hagsmuni, árás á æru eða orðspor en í þessari 36. gr. er sagt frá því að synji fjölmiðlaþjónustuveitandi beiðni um andsvar eða bregðist ekki við geti hlutaðeigandi beint erindi til Fjölmiðlastofu sem tekur ákvörðun um hvort aðili eigi rétt á að koma andsvörum á framfæri. Ákvörðun skal tekin innan viku frá því að Fjölmiðlastofu berst erindi þar um og skal stofnunin leggja fyrir viðkomandi fjölmiðlaþjónustuveitenda að miðla andsvari án tafar þegar við á. Mér finnst nokkuð langt gengið inn á verksvið ritstjórnanna með þessu, sérstaklega þegar horft er til 53. gr. sem fjallar um dagsektir og segir að Fjölmiðlastofa geti lagt allt að 200.000 kr. dagsektir fyrir hvern byrjaðan dag á þann sem samkvæmt e-lið vanrækir að verða við ákvörðun Fjölmiðlastofu um skyldu til að birta andsvör. Hér er að mínu mati allt of langt gengið á ritstjórnarvald hvers miðils. Það á að vera hlutverk ritstjórnarinnar að meta hvenær sjónarmið eigi rétt á sér og hvenær ekki og ekki er hægt að framselja slíkt vald til opinberrar stofnunar úti í bæ. Það gengur algerlega gegn því umhverfi sem frjálsir fjölmiðlar eiga að búa við.

Undir þessum röksemdum gætu auk þess margvíslegir minnihlutahópar haldið því fram að þeir ættu rétt og heimtingu á því að koma sínum sjónarmiðum á framfæri, þrátt fyrir að flestir siðaðir menn og mikill meginhluti almennings væri þeirrar skoðunar að sjónarmið þeirra væru svo ógeðfelld að þau ættu ekki erindi þangað. Í þessu samhengi hafa menn t.d. rætt um, án þess að ég ímyndi mér að slíkt dæmi geti komið upp en bara til að sýna fram á að öll sjónarmið eru ekki endilega jafnrétthá, að ef t.d. talsmenn áhugafólks um mannát vildu sérstaklega fá að koma sínu sjónarmiði á framfæri vegna þess að um það hefði verið fjallað með mjög neikvæðum hætti í fjölmiðlum þá er ekki sjálfgefið að fjölmiðill bregðist við því, því síður verði síðan niðurstaða Fjölmiðlastofu að þeir eigi sérstakan rétt á því að koma andsvörum á framfæri. Ef til vill er kannski dálítið langt gengið með þessu dæmi en það sýnir hins vegar við hvað er að etja. Það eru ekki endilega öll sjónarmið jafnrétthá eða eiga erindi í fjölmiðla. Þetta er grein sem ég geri ráð fyrir að hv. menntamálanefnd taki sérstaklega til skoðunar.

Að öðru leyti fagna ég því að þetta viðamikla frumvarp sé komið fram. Ég ítreka það sem ég sagði fyrr í ræðu minni að aðalatriðið varðandi eignarhaldið er að mínu mati að það sé gagnsætt, að það sé á hreinu og aðgengilegt fyrir almenning hverjir eigi fjölmiðlana, sérstaklega þá sem sinna fréttaþjónustu, og það liggi fyrir hvernig eignarhaldinu er háttað í hvert sinn sem slík fréttaþjónusta fer fram þegar það snertir á einhvern hátt eiganda fyrirtækisins. Við sjáum t.d. að það er ítrekað gert á fréttastofu Stöðvar 2, eða hefur a.m.k. verið í gegnum tíðina. Þegar fjallað er um málefni er tengjast eigendum þeirrar fréttastofu er vísað sérstaklega til þess að hún sé í eigu tiltekinna aðila sem fjallað er um í fréttum.