138. löggjafarþing — 88. fundur,  9. mars 2010.

fjölmiðlar.

423. mál
[16:40]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra fyrir mjög ærleg og skýr svör. Ég held að þau munu öll hjálpa til við vinnuna og vinnsluna í nefndinni, sem ég sit reyndar ekki í en maður fylgist náttúrlega með þessum málum eins og öðrum. Ég vil þakka hæstv. ráðherra fyrir þessi skýru svör.

Ég vil líka hrósa hæstv. ráðherra fyrir það að taka ekki upp þá lensku ríkisstjórnarinnar í erfiðum málum, því fjölmiðlamálin eru erfið, að skipta út þeirri samninganefnd sem fyrir er og hafa stuðst áfram við Karl Axelsson og ég sé líka starfsmenn ráðuneytisins sem eru þarna. Það hefur ekki gefið góða raun að skipta alveg út fólkinu sem hefur verið að vinna að erfiðum málum. En það er önnur saga. Það veitir hins vegar ákveðna tiltrú á því að ákveðin samfella verði í þessari nálgun. Þetta fólk er búið að vinna mjög lengi að fjölmiðlamálum og hefur mjög yfirgripsmikla þekkingu á þessu sviði. Ég fagna því sérstaklega að áfram er unnið með þá þekkingu sem til staðar er og líka reynt að bæta við hana, sem er fagnaðarefni.

Það var eitt atriði sem ég vildi spyrja hæstv. ráðherra um í andsvari mínu. Það eru þessar vangaveltur út af hatursáróðrinum. Ég held að það sé alveg rétt að við eigum að nálgast þetta með ákveðnum hætti upp á ákveðna sátt í samfélaginu, ákveðna orðræðu sem verður að fara að verða heilbrigðari. En um leið er það afskaplega þröngt þetta einstigi. Hvenær förum við inn á þau mörk sem kallast tjáningarfrelsi? Hvenær erum við að vernda persónur og leikendur í samfélaginu? Ég vil spyrja hæstv. ráðherra í tengslum við það tilvik sem ég nefndi áðan …

(Forseti (ÁRJ): Forseti vekur athygli á að klukkan er biluð en tíminn er liðinn.)

Já, þá vil ég koma að spurningunni. Hún er í tengslum við 27. gr. — ég vil þakka hæstv. forseta fyrir það umburðarlyndi sem hann ætlar að sýna mér: Hvernig metur hæstv. ráðherra tilvik Dana, út af Jyllands-Posten , vegna múhameðsteikninganna? Ef hann sæi slíkt tilvik hér heima — og ég er ekki að mæla með því að íslenskir fjölmiðlar fari í það að gera grín að trúarbrögðum, engan veginn, en þetta er bara spurning um prinsippmál. Hvernig horfir menntamálaráðherra á það tilvik? Hvernig hefði hún tekið á því hefði þetta komið upp hér á landi?