138. löggjafarþing — 88. fundur,  9. mars 2010.

stjórn fiskveiða.

424. mál
[17:02]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langar að beina örfáum spurningum til hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. Í frumvarpinu kemur fram að ef 20% eða meira af aflaheimildum fara frá viðkomandi byggðarlagi ætli menn að grípa inn í. Ef það kæmi nú upp að eitthvert fyrirtæki í byggðarlaginu gæti ekki tekið yfir þessar aflaheimildir, ekki keypt þær, hvernig sér ráðherra fyrir sér að það mundi leysast? Ætlar ríkið þá fara að gera út eða ætla bankarnir að fara að gera út? En eins og kemur fram í frumvarpinu er að mati ráðuneytisins ríkur skilningur hjá bönkunum og lánastofnunum á því að ekki megi færa til aflaheimildir í svona miklum mæli frá einu byggðarlagi sem ég tek að sjálfsögðu heils hugar undir.

Hæstv. ráðherra segist hafa skilað til ríkisstjórnarinnar minnisblaði fyrir sex mánuðum síðan, í desember 2009, þar sem hann segist gera sér grein fyrir miklum erfiðleikum í sjávarútvegi landsins, skuldastöðu sjávarútvegsins og útgerðarinnar sérstaklega, eins og hann vitnar í hér. Því langar mig að spyrja hæstv. sjávarútvegsráðherra einnar einfaldrar spurningar: Hefur hæstv. sjávarútvegsráðherra boðað forsvarsmenn Landssambands íslenskra útvegsmanna og Landssambands smábátaeigenda formlega til sín á fund til að ræða þessa erfiðu og grafalvarlegu stöðu?