138. löggjafarþing — 88. fundur,  9. mars 2010.

stjórn fiskveiða.

424. mál
[17:06]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. sjávarútvegsráðherra fyrir svörin. Þau voru dálítið athyglisverð að því leyti til að hann upplýsir það að nú ætli ríkið að skipa skiptastjórum eða bönkunum að fara að gera út ef svo ber undir að aðrir í sveitarfélaginu geta ekki gert það. Það er dálítið merkilegt. En eigi að síður, til að taka af öll tvímæli um það, er þetta málefni sem verður að ræða og er gríðarlega mikilvægt fyrir okkur að ræða. Ég er alveg sammála hæstv. ráðherra að það má ekki raska byggð í landinu eða færa stórar aflaheimildir burt vegna gjaldþrota stórra fyrirtækja. Það er mjög varhugavert og þetta eru auðvitað hlutir sem við verðum að ræða.

Hitt þótti mér öllu merkilegra svar frá hæstv. ráðherra þegar hann segir að hann hafi boðað til sín forustumenn bæði Landssambands smábátaeigenda og LÍÚ til að fara yfir skuldavanda sjávarútvegsins. Ég fagna því ef sá fundur hefur farið fram. Þegar ég spurði eftir því fyrir örfáum vikum síðan hvort þetta hefði verið gert var mér sagt að það hefði ekki verið gert. Það er kannski einhver misskilningur sem hæstv. ráðherra er þá búinn að leiðrétta hér. En eftir því sem hann segir, og ef ég hef skilið hann rétt, hefur hann boðað þessa menn til formlegs fundar í ráðuneytinu í tvígang.

Mig langar líka að spyrja hæstv. ráðherra, af því að hann hefur greinilega verið í miklum samskiptum við bankana til að ræða það og það er bara gott: Hefur hæstv. ráðherra beitt sér eitthvað fyrir því að nú fer einn ríkisbankinn, eins og Landsbankinn, með miklu offorsi fram og er að hækka vaxtaálögur á fyrirtæki sem eru í viðskiptum við hann? Hefur hæstv. ráðherra tekið þau málefni upp við forustumenn bankanna eða bankastjórnirnar og bent þeim á að þetta sé ekki gott við þær aðstæður sem eru núna, fyrir utan það að það eru náttúrlega engin rök fyrir því að gera það vegna þess að það sem er að drepa íslenskt atvinnulíf yfir heildina er náttúrlega vaxtaálagið sem er í landinu? Hefur hæstv. ráðherra gert eitthvað til að koma þeim skilaboðum til ríkisbankans Landsbankans?