138. löggjafarþing — 88. fundur,  9. mars 2010.

stjórn fiskveiða.

424. mál
[17:33]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég ætla að vekja athygli á einu. Þegar hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra svaraði mér í seinna andsvarinu áðan — hann fór yfir það þegar hann talaði við bankastofnanir til að fara yfir vandamál sjávarútvegsins — gat hann ekki setið á sér og sagði: Þó sérstaklega vegna landbúnaðarins. (Gripið fram í.) Þó sérstaklega vegna landbúnaðarins, sagði hæstv. ráðherra. Það kannski minnir mann á, og ég er farinn að upplifa það þannig, að í raun og veru er enginn sjávarútvegsráðherra í landinu. Hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra er svo upptekinn af landbúnaðinum að hann getur ekki hugsað um sjávarútveginn. Enda er það þannig að þegar kemur að sjávarútveginum er hæstv. ráðherra eins og minkur í hænsnabúi, nánast allt sem hann gerir er til óþurftar. Ég verð bara að segja það, virðulegi forseti, því að þetta gengur algjörlega fram af mér.

Í máli hv. þingmanna, sem tekið hafa þátt í umræðunni, hefur komið fram að að sjálfsögðu er þetta alræðisvald sem ráðherrann vill hafa bara eins og hann sé alvörukommúnisti í einræðisríki. Hann vill fá að ráða öllu, hafa allt saman opið þannig að hann geti stjórnað öllu og haft allt eins og það á að vera. Það er ekki verið að kalla eftir því í dag að færa öll völd frá Alþingi til framkvæmdarvaldsins. Það er algjörlega með ólíkindum að verið sé að gera þetta með þessum hætti. Það er mjög sérkennilegt af því að það er mjög mikilvægt fyrir okkur að ræða þessi mál og grunnurinn að þeim er mikilvægur til að bregðast við — en það getur ekki gengið fram í hverju einasta máli, hverju á fætur öðru, að alræðisvaldið fari alltaf til geðþóttaákvarðana hæstv. ráðherra. Það er orðið algjörlega nóg af slíkri vitleysu og hana verður að stoppa, það er algjörlega útilokað mál, gjörsamlega útilokað mál. Þegar maður hefur mörg dæmi um það hversu upptekinn hæstv. ráðherra er af landbúnaðinum og skeytir lítið um sjávarútveginn þá er þetta algjörlega með eindæmum.

Frumvarpið tekur fyrst og fremst á tveimur málum, annars vegar hvað varðar byggðakvótann — það er því rétt eins og hv. þm. Einar Kristinn Guðfinnsson benti á að þar er náttúrlega allt opið fyrir hæstv. ráðherra, þó er reyndar tilgreint í frumvarpinu þar sem hugsanlega er verið að færa meiri heimildir frá því skipi sem fær byggðakvótann og það er mjög skynsamlegt að bregðast við því. Þetta eru hlutir sem menn þurfa að ræða efnislega og þurfa að skoða mjög vandlega áður en farið er af stað í þessa vegferð.

Hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra svaraði því áðan að hann hygðist beita sér fyrir því, og fær til þess heimild samkvæmt þessum lögum, að skikka þá sem hafa lánað fyrirtækjum sem lenda í rekstrarerfiðleikum, þ.e. ef ekki er hægt að láta viðkomandi aflaheimildir fara innan sveitarfélagsins þar sem viðkomandi fyrirtæki fer í þrot — þá er það hugmynd hæstv. ráðherra að hann muni skikka bankana, sparisjóði og lánastofnanir, að fara að gera út. Það var mjög skýrt hvernig hann svaraði því. Ég er í grunninn alveg sammála því að það á að forðast að menn séu að færa mikið af aflaheimildum frá byggðarlögum sem lenda í vandræðum — hugsunin er góð en útfærslan er svo vitlaus. Mun þetta leiða til þess að lánastofnanir muni forðast að taka til sín fyrirtæki og láti bara aðra um að gera það? Það sjá það allir heilvita menn að auðvitað hefur enginn bankastjóri eða sparisjóðsstjóri áhuga á því að vera að reka einhverja útgerð hér og aðra þar. Það sjá allir hvert það stefnir, það gefur algjörlega auga leið. Menn þurfa að skoða þessa hluti, hvernig menn ætla að útfæra þetta.

Nú setur hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra bara lög, hann bara segir mönnum: Nú bara gerir þú út, vinur, bara gerir út, og þeir verða bara að gera það. Er það skynsamlegt? Ég velti því fyrir mér, virðulegi forseti. Væri hugsanlega hægt að ræða það á þeim nótum að fá eitthvert ákveðið fyrirtæki, sem hefði þá hugsanlega ekki bolmagn til þess að kaupa aflaheimildirnar, til þess að nýta þær eða þar fram eftir götunum? Það eru margir fletir á þessu máli þó að ég sé sammála grunnhugsuninni. Vandamálið er þetta, virðulegi forseti, að lánastofnanirnar munu hugsanlega forðast það að taka þetta yfir.

Mig langar aðeins að velta því upp þegar hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra kemur hér og segir — jú, mikilvægt að reyna að bregðast við þessum vandamálum sem útgerðin er í, ég geri ekkert lítið úr því. En hvað hefur hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra t.d. gert til þess að bregðast við þeim vandamálum sem hafa verið hér? Hann byrjaði á því að boða fyrningu sem að sjálfsögðu verðfelldi öll fyrirtækin og tók allan þrótt úr þeim og úr einstaklingunum í útgerðinni. Það var byrjað á því. Það er samdóma álit allra bankamanna að þau skilaboð ein og sér hafi verðfellt fyrirtækin mjög mikið. Það er nú það sem hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hefur lagt til. Það er eins gott að halda því til haga, setja sjávarútveginn í enn meiri óvissu en hann er í.

Mig langar líka, virðulegi forseti, aðeins að fara yfir það hverjar lausnir Landsbankans gagnvart skuldsettum sjávarútvegsfyrirtækjanna eru. Þær fela í sér svokallaða 110% leið — það er ein af þessum lausnum — sem felst í því, eins og svo margt annað sem ríkisstjórnin er að gera, að eingöngu á að skera þá niður úr snörunni sem fóru óvarlegast í fjárfestingum. Þessi leið er í stuttu máli þannig að eignavirði fyrirtækisins er metið. Ef við segjum að fyrirtækið eigi eignir upp á milljarð og skuldi 1.100 milljónir þá getur það keypt sig niður í svokallaða 110% leið með því að setja nýtt eigið fé, sem er 10% af virði fyrirtækisins, þá fær það fellt niður það sem stendur út af.

Ef við tækjum tvö fyrirtæki, annað á eignir fyrir milljarð og skuldar 1.100 milljónir. Það er ábyrgt fyrirtæki. Þrátt fyrir áfall bankanna — bankahrunið þar sem bankamennirnir sjálfir keyptu allar krónurnar og settu allt á hausinn — mun þetta fyrirtæki þurfa að setja inn 100 milljónir í nýtt eigið fé frá eigendum fyrirtækisins. Við það fær það felldar niður 20 milljónir. Við skulum svo taka annað dæmi því að ég þekki nefnilega svona dæmi. Það er þannig að fyrirtæki sem á jafnmiklar eignir og fyrrnefnda fyrirtækið en skuldar helmingi meira, tvo milljarða. Af hverju skyldi það vera? Skyldi það hugsanlega vera vegna þess að eigendurnir hafi verið í verðbréfabraski, óábyrgir, ekki verið að sinna fyrirtækinu og þar fram eftir götunum? Það er nefnilega kannski þannig, virðulegi forseti. Þá eru lausnir ríkisbankans Landsbankans — það er sama aðferðafræði. Annað fyrirtækið fær felldan niður einn milljarð en hitt 20 milljónir með sama grunninn, þeir sem hafa rekið fyrirtækið vel og sinnt fyrirtækinu. Þetta eru nefnilega lausnir hæstv. ríkisstjórnar í öllu sem er. Það á að skera þá niður úr snörunni sem óvarlegast hafa farið. Ekki er farið í grunninn að því hvað liggur að baki skuldasöfnun viðkomandi fyrirtækja, ekki neitt. Brúttóstaðan er bara tekin og svo er skorið af. Þetta er þessi sanngirni sem menn eru að kalla yfir sig og þeir eru meira að segja svo forhertir að geta komið hingað upp í ræðustól Alþingis og kallað þetta gegnsæi og sanngirni.

Það er nefnilega í sjávarútveginum og á mörgum öðrum stöðum verið að skera þá niður úr snörunni sem fóru óvarlega. En þegar kemur að því að hjálpa heimilunum og svoleiðis þá eru bara ekki til neinar lausnir. Hæstv. félagsmálaráðherra segir í sjónvarpinu: Það er ekki í mannlegu valdi að gera þetta. En það er hægt að gera alls konar vitleysur, hægri, vinstri, og enn eina ferðina er verið að gera það. Ég kalla þetta alveg hreint með ólíkindum.

Ég vil síðan koma hér með góðfúslegar ábendingar til hæstv. ráðherra af því að hann hefur greinilega miklar áhyggjur af sjávarútveginum, hann er farinn að uppgötva að hann er líka ráðherra fyrir hann. Það er mjög einfalt að bregðast við vanda sjávarútvegsins að hluta til. Það er bara að bæta við kvótann. Það eru nefnilega allir bátar, öll fyrirtæki, að stoppa í landinu og nú mun þetta hrynja hér yfir ríkisvaldið. Það þarf að bæta við aflaheimildir og það skilur það enginn. Ef þú kemur út í sjávarplássin þar sem bátarnir eru fullir af fiski og fjörðurinn fullur af fiski og það er allt að stoppa, það er allt að hrúgast inn á atvinnuleysisbætur — nei, þá eru þetta lausnirnar: Látið þið bara bankana fara að gera út. Það er ekki verið að hugsa um það að fara að skapa verðmæti í þjóðfélaginu. Það er alveg hreint með ólíkindum en það á að hrúga öllu liðinu inn á atvinnuleysisbætur og stoppa fiskvinnslurnar, það eru lausnirnar sem þetta fólk sér. Það er algjörlega með ólíkindum.

Að lokum, áður en ég hætti, ætla ég að segja við hæstv. ráðherra: Ef þú vilt bæta stöðu sjávarútvegsins í landinu skaltu bæta við aflaheimildir, hætta við fyrninguna og gefa því fólki von sem starfar í þessari grein og sjá til þess að hætt verði að ofsækja þá einstaklinga sem þar eru. Þú ættir kannski, hæstv. ráðherra, að taka það upp við hæstv. félagsmálaráðherra, ef þér finnst það ekki viðeigandi — sem mér finnst reyndar ekki — að ráðherra í ríkisstjórn Íslands skuli koma fram og kalla alla þá aðila sem starfa í einni atvinnugrein apaketti og spilafíkla, það er alveg hreint með ólíkindum. Ég held að þú ættir að beita þér fyrir þessu, hæstv. ráðherra.