138. löggjafarþing — 88. fundur,  9. mars 2010.

stjórn fiskveiða.

424. mál
[17:43]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Jón Bjarnason) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil í fyrsta lagi leiðrétta eitt atriði. Fundur sem við áttum með bönkunum, seinni fundurinn sem ég var að vitna til, sem haldinn var fyrir skömmu, var haldinn með Bændasamtökunum og fleiri aðilum um landbúnaðinn. Það lá alveg ljóst fyrir að þar voru sjávarútvegsmálin líka rædd eins og ég sagði í ræðu minni. Fyrri fundurinn var um þetta í heild sinni. Áfram eru fundir og við erum áfram í sambandi við bankana um að reyna að fylgjast með hvað þar er að gerast.

Ég vil árétta það að í þessu uppgjöri öllu, á milli banka og fyrirtækja, standa byggðirnar og íbúarnir réttlausir. Ef allt á að gerast á grundvelli bankanna eða á grundvelli laga um gjaldþrot verða íbúar byggðarlaganna gjörsamlega til hliðar settir vegna þess hvernig kvótakerfinu er til hagað. Þess vegna er þetta frumvarp flutt hér til þess að geta gripið inn í við þessar aðstæður ef illa er að fara. Ég trúi ekki öðru og treysti að hv. þm. Ásbjörn Óttarsson sé mér sammála í því. Hvernig síðan við getum gert það — en í frumvarpinu er lögð fram tillaga að því og ég treysti því að í hv. sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd fari menn gaumgæfilega yfir þetta og hvort aðrar leiðir séu betri. En við verðum að hugsa um það að í þeim hrunadansi sem nú stendur yfir verði byggðirnar ekki gjörsamlega réttlausar eftir. Þetta er ekki bara einkamál banka og fyrirtækja, þetta er líka spursmál um atvinnu og búsetu fólks alveg eins og lögin um stjórn fiskveiða kveða á um. (Forseti hringir.) Ég vona að við fáum góðan stuðning, herra forseti, til þess að finna bestu leiðina í þessum efnum.