138. löggjafarþing — 88. fundur,  9. mars 2010.

stjórn fiskveiða.

424. mál
[17:45]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er algjörlega sammála hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra um að það er verið að verja byggðirnar og það þarf að gera það. Ég sagði það bæði í andsvari við ræðu hans og eins í ræðu minni hér áðan. Það er mjög mikilvægt að verja byggðirnar. Ég tek heils hugar undir hugsunina á bak við þetta en aðferðin er svo vitlaus, það er það sem ég benti á.

Það er ekki hægt að búa við þessar ósvöruðu spurningar í frumvarpinu lengur, virðulegi forseti. Það er ekki hægt að búa við það að hvert frumvarpið á fætur öðru frá hæstv. sjávarútvegsráðherra sé klárað og allt skilið eftir opið, og hann fái svokallað alræðisvald. Það er ekki hægt. Það er ekki verið að kalla eftir því nema þetta séu allt saman öfugmæli hjá ríkisstjórninni um gagnsæ, lýðræðisleg og opin vinnubrögð með samvinnu. Svo er allt tekið úr höndum þingsins og sett í hendur hæstv. ráðherra. Það er ekki boðlegt.

Ég er algjörlega sammála hæstv. ráðherra um að það verður að verja byggðirnar, ég hef alltaf sagt að það þurfi að gera það. En þessi aðferðafræði er algjörlega í skötulíki og fullt af spurningum er ósvarað, það er ekkert farið að svara þeim enn þá. Hvernig ætlar hæstv. ráðherra að láta lítinn sparisjóð hér eða þar gera út einn lítinn bát hér eða þar? Þetta er ekki framkvæmanlegt og það er það sem ég er að benda á að menn þyrftu að ræða þetta á víðari grunni. Það væri mögulegt að láta t.d. aðila í viðkomandi sveitarfélagi nýta aflaheimildirnar eða þar fram eftir götunum. Það er margt sem þarf að ræða. Grunnurinn er sá að verja byggðirnar en þetta er með þeim hætti gert að það er alveg með ólíkindum.

Ég sagði við hæstv. ráðherra og ætla að ítreka það: Ég auglýsi eftir því að við eignumst sjávarútvegsráðherra í landinu, ekki eingöngu landbúnaðarráðherra, sem fari að verja hagsmuni sjávarútvegsins, hann komi hingað í ræðustól Alþingis og segi: Þetta tel ég vera best fyrir sjávarútveginn. Það er það sem ég auglýsi eftir, virðulegi forseti, og ég segi enn og aftur: Ef hæstv. ráðherra ætlar að verja sjávarútveginn á hann að beita sér fyrir því að bæta við aflaheimildum og líka (Forseti hringir.) afboða þessa ólánlegu og vitlausu fyrningarleið. (Menntmrh.: Já, nú er nóg komið. Ég segi það nú bara.)