138. löggjafarþing — 91. fundur,  15. mars 2010.

fjölgun starfa og atvinnuuppbygging.

[15:13]
Horfa

iðnaðarráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þessar tvær fyrirspurnir. Í fyrsta lagi varðandi hvort ég styðji það að orka sé flutt af svæðinu til atvinnuuppbyggingar annars staðar ætti að vera nærtækast fyrir þingmanninn að lesa viljayfirlýsinguna sem undirrituð var við Þingeyjarsýslurnar nú í haust (Gripið fram í.) sem leið. Þar kemur það skýrt fram að þar eru stjórnvöld skuldbundin til þess að standa að atvinnuuppbyggingu á svæðinu sem nýtir orkuna sem er fyrir norðan. Að því erum við að vinna af fullum heilindum.

Varðandi friðlýsingu Gjástykkis, þegar sama viljayfirlýsing var undirrituð tjáði ég þeim aðilum sem að henni stóðu að hugmyndirnar um friðlýsingu Gjástykkis væru enn þá uppi á borði hjá þessari ríkisstjórn. Þær hafa líka heyrst frá fyrrverandi iðnaðarráðherra sem var í þessu starfi á undan mér að vilji er til að fara þessa leið. Það hefur verið kynnt í ríkisstjórn að setja þetta samráðsferli af stað. Það hefur lengi verið um það rætt af hálfu stjórnarflokkanna að Gjástykki verði friðað og nú er verið að setja þetta samráðsferli af stað. Það átti því ekki að koma neinum á óvart. Ég tel að það sé miklu verra að láta þetta vofa yfir en að fara í samráðið sem haft verður bæði við landeigendur og við sveitarstjórnarmenn á svæðinu. Hver niðurstaðan úr því verður ætla ég ekki að tjá mig um eða úrskurða um hér vegna þess að þetta þarf auðvitað að fara fram með eðlilegum hætti.

Það er ekki rétt hjá hv. þingmanni að Gjástykki sé lykill að atvinnuuppbyggingu á þessu svæði. (Forseti hringir.) Gjástykki var varahjólið undir orkuöflunaráformum Landsvirkjunar þarna og það kom skýrt fram þegar við vorum að fara yfir þessi mál á sínum tíma í iðnaðarnefnd. Mig minnir að hv. þingmaður hafi setið þar á þeim tíma með þeirri sem hér stendur.