138. löggjafarþing — 91. fundur,  15. mars 2010.

breytingar á stofnanaumhverfi vegna ESB-aðildar.

[15:20]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Nú veit ég ekki hvort hv. þingmaður veltir því hér upp hvort það eigi að endurskoða aðildarumsókn okkar. Ég hef áður sagt að þingið ræður öllu varðandi það ferðalag. Þingið tók þessa ákvörðun og ef menn vilja hætta við hana verður þingið að gera það. Ég sé enga ástæðu til þess.

Sú skýrsla sem framkvæmdastjórnin lagði fram um daginn var merkileg fyrir margra hluta sakir. Það ber að líta á hana sem línuna sem þeir draga í upphafi þessa ferlis. Síðan setjum við fram okkar gagnkröfur, svo verður samið og út úr því kemur niðurstaða.

Sú spurning sem hv. þingmaður varpaði hér til mín — ja, hann hefði átt að vera hér í salnum um daginn því að ég hef fengið þessa spurningu áður skriflega frá einum af hv. þingmönnum Framsóknarflokksins. Ég sagði það skýrt þá að það er alveg ljóst að aðild að Evrópusambandinu gerir alla jafna kröfur um gríðarlega uppstokkun á stofnanakerfum viðkomandi ríkja. Í okkar tilviki er það töluvert frábrugðið vegna þess að við erum þegar aðilar að EES og Schengen og einu stofnanauppbrotin og breytingarnar sem hugsanlega þarf að gera eru innan landbúnaðarins. Ég hef gert grein fyrir því hvaða breytingar það eru.

Það er rétt sem hv. þingmaður segir, að kröfurnar eru þær að settar verði upp tilteknar nýjar stofnanir og þær verða mannfrekar. Ég hef hins vegar lýst því alveg skýrt úr þessum stóli að við förum í þessa samninga með það fyrir augum að ná sem hagstæðastri niðurstöðu. Við munum að sjálfsögðu berja fótastokk smæðar okkar og sérstöðu og freista þess í samningunum að stofnanir sem fyrir eru geti hugsanlega tekið þessi störf að sér þannig að það verði ódýrara en ella. Ég hef hins vegar sagt það skýrt frá upphafi, m.a. í þarsíðustu viku, að það er alveg ljóst að þetta mun fela í sér kostnað sem verður umtalsvert meiri en er í dag. Það er alveg ljóst.