138. löggjafarþing — 91. fundur,  15. mars 2010.

álverið í Straumsvík.

[15:33]
Horfa

iðnaðarráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrirspurnina. Í fyrsta lagi held ég að það sé algjört lykilatriði að Búðarhálsvirkjun verði nýtt í þessa straumhækkun í Straumsvík, því hefur verið lýst yfir. Þess vegna fagnaði ég því mjög þegar Landsvirkjun tók ákvörðun, þrátt fyrir að vera ekki búin að fjármagna alla framkvæmdina í heild sinni, þ.e. alla virkjunina, að halda henni á áætlun með því að bjóða út jarðvegsframkvæmdirnar sem unnar verða í sumar, sem gerir það að verkum að sú virkjun er á áætlun.

Í öðru lagi get ég ekki upplýst um það hér og nú hver staðan er en það eru samningaviðræður í gangi á milli Landsvirkjunar og Rio Tinto Alcan um verð á orkunni sem kemur frá Búðarhálsi. Ég held að við ættum að gefa þeim rými til að ljúka þeim og síðan í lok sumars var ætlunin hjá Rio Tinto Alcan að geta svarað því endanlega hvenær og með hvaða hætti farið yrði í þessa stækkun.

Það er vissulega kveðið á um þetta verkefni í stöðugleikasáttmálanum. Þess vegna hafa stjórnvöld lagt mikið á sig til þess að af þessu megi verða. En nú eru þetta einfaldlega orðnar viðræður á viðskiptalegum forsendum milli kaupenda og seljenda orku. Þar eigum við stjórnvöld ekki að anda ofan í hálsmálið á fyrirtækinu Landsvirkjun sem á að hafa það fyrst og fremst að markmiði að hámarka þann arð sem þjóðin getur fengið fyrir orkuna sem er framleidd úr auðlindum okkar.