138. löggjafarþing — 91. fundur,  15. mars 2010.

staðgreiðsla opinberra gjalda og virðisaukaskattur.

445. mál
[15:41]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. fjármálaráðherra fyrir ágæta ræðu. Ég vildi spyrja hann að einu. Hér er um að ræða vörslugjöld, þ.e. gjöld sem fyrirtæki hafa innheimt af öðrum aðila fyrir hönd ríkissjóðs og eiga að skila honum. Sumir hafa nefnt þetta „rimlagjöld“, með vísan í að það getur varðað við fangelsisvist að halda þessu eftir. Er það ekki rétt skilið að það sé í rauninni til hagsbóta fyrir skuldarann — það kemur ekki fram í greinargerðinni — að vörslugjöldin fari í forgangsröð í þrotabúið þannig að það er síður hætta á því að hann verði kærður fyrir fjársvik?