138. löggjafarþing — 91. fundur,  15. mars 2010.

staðgreiðsla opinberra gjalda og virðisaukaskattur.

445. mál
[15:44]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég hygg að hv. þingmaður hafi alveg rétt fyrir sér í þeim skilningi að það eru minni líkur á því með þessari breytingu, að eftir standi ógreiddir vörsluskattar þegar búi hefur verið skipt og í þeim skilningi minnkandi líkur á því að menn skuldi enn vörsluskatta. Það er auðvitað alltaf mjög alvarlegt og eru um það ákvæði, eins og kunnugt er, í hegningarlögum ef slíkt er gert vísvitandi, ef menn hafa beinlínis haldið eftir fé sem þeir innheimta fyrir ríkissjóð og eiga að skila á tilteknum gjalddögum. Ef það hefur verið gert að yfirlögðu ráði er slíkt auðvitað mjög saknæmt og alvarlegt. En þær aðstæður geta verið fyrir hendi sem verða til þess að einhver slík gjöld eru ógreidd einmitt þegar fyrirtæki kemst í þrot, það þarf ekki endilega að vera af saknæmu tagi. Þetta er nú eitthvað fyrir sérfróða aðila á þessu sviði að skoða. Aðalatriðið er að ég er sammála hv. þingmanni, ég held það sé eðlilegt að vörslufé af þessu tagi sé með því allra fyrsta sem tryggt sé við greiðslur úr búi samhliða öðrum algerum forgangskröfum eins og launakröfum og slíku.