138. löggjafarþing — 91. fundur,  15. mars 2010.

staðgreiðsla opinberra gjalda og virðisaukaskattur.

445. mál
[15:46]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F):

Frú forseti. Við ræðum frumvarp til laga um staðgreiðslu opinberra gjalda og lög um virðisaukaskatt. Þetta eru svo sem ekki fyrstu málin sem við í efnahags- og skattanefnd fáum til umfjöllunar er snerta breytingar á skattkerfinu og eins og við fórum á mjög hröðum hlaupum yfir fyrir áramót hefðum við betur vandað til þeirrar lagasetningar, enda hefur það komið á daginn í framhaldinu að vegna þess hversu hratt þær breytingar voru gerðar hafa verið gerð mistök, m.a. er snerta birtingu á lögunum sem við þurftum síðar að leiðrétta hér í þinginu.

Þetta frumvarp er ætlað til þess að styrkja stöðu ríkissjóðs vegna krafna sem ríkissjóður hefur í þrotabú. Við fyrstu sýn get ég ekki séð annað en ég sé fylgjandi frumvarpinu enda veitir okkur svo sem ekki af því að standa vörð um alla tekjustofna ríkissjóðs í dag á erfiðum tímum. Þess vegna, við fyrstu umferð, lýsi ég mig fylgjandi þeim markmiðum sem hæstv. ráðherra hefur sett fram með frumvarpinu.

Það sem ég hef að athuga við frumvarpið er aðallega það fylgiskjal sem fylgir með frumvarpinu, þ.e. umsögn fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins. Ég hefði gjarnan viljað fá að vita við upphaf málsins um hversu umfangsmikið mál við erum að ræða, hversu mikla hagsmuni er verið að tryggja í þessu. Við vitum að gríðarlegur fjöldi fyrirtækja á því miður í miklum erfiðleikum og fyrirséð að muni lenda í greiðsluþroti eða gjaldþroti. Þess vegna hefði verið ágætt að sjá einhverja áætlun frá fjármálaráðuneytinu í umsögn þess um það hversu mikið við gætum ályktað að frumvarpið mundi tryggja ríkissjóði aukna fjármuni. Ég ætla svo sem ekki að endurtaka það hversu brýnt það er að við förum mjög vandlega ofan í skattalagabreytingar og umhverfi fyrirtækjanna og almennings í landinu en ég ætla hins vegar að koma fram með þá skoðun hér þannig að hæstv. ráðherra heyri hana, ég veit ekki hvort hann hefur heyrt hana áður, að ég tel að þær breytingar sem við gerðum á allt of stuttum tíma, grundvallarbreytingar á skattumhverfi fyrirtækjanna og reyndar almennings líka, hafi verið illa ígrundaðar og munu koma niður á tekjustofnum ríkissjóðs, því miður, strax á þessu ári.

Ég hef fundið það sem venjulegur borgari í landinu að fylgni við skattkerfið hið íslenska hefur ekki verið að aukast að undanförnu, þvert á móti. Ég hef áhyggjur af því vegna þess að við þurfum á öllum þeim fjármunum að halda sem ríkissjóður getur náð í, skuldugur ríkissjóður. Þess vegna væri jafnvel fróðlegt að heyra það frá hæstv. ráðherra hvort hann hyggist breyta skattkerfinu á þessu ári meira í grundvallaratriðum og ef svo er, hvort það væri þá ekki ráð að hleypa stjórnarandstöðunni að þeirri vinnu þannig að við getum náð meiri sátt í þinginu um þær breytingar sem hæstv. ráðherra ætlaði sér að gera. Og að við gætum kannski gert það með yfirvegaðri hætti en að ræða það til að mynda undir áramót á einu laugardagskvöldi um skattstefnu ríkisstjórnarinnar og þær breytingar sem við gerðum þá á frumvarpinu.

En þetta er í allri vinsemd sett fram og ég vil segja það að hv. efnahags- og skattanefnd mun taka þetta mál til gaumgæfilegrar skoðunar. Ég mun a.m.k. fara vel yfir þetta. Ef hæstv. ráðherra hefur ekki svör við því hvað við getum áætlað að mörg fyrirtæki lendi í þroti á þessu ári og hversu miklum fjármunum þetta frumvarp muni skila, sem sagt með breytingum á þessum lögum, hefði verið fróðlegt að heyra það vegna þess að á Íslandi í dag eru mjög erfiðir tímar. Mörg fyrirtæki og mörg heimili eru í mjög erfiðum málum og mikilvægt er fyrir okkur á þinginu að fá allar þær upplýsingar sem því tengjast til að kortleggja stöðuna. Við framsóknarmenn höfum talað fyrir því að koma til móts við þessi skuldugu heimili og fyrirtæki með leiðréttingu á skuldavanda þeirra. Það veitir svo sannarlega ekki af. Við horfum upp á það að skuldir heimila og fyrirtækja eru því miður að vaxa dag frá degi og við köllum eftir aðgerðum af hálfu ríkisstjórnarinnar í þeim efnum. Ég ætla að leyfa mér þann munað að verða ekki alveg úrkula vonar um að á einhvern hátt verði öll þessi mál leiðrétt og þar með verði staða íslensks atvinnulífs og heimila bætt því að veitir ekki veitir af eins og nú árar á Íslandi í dag.