138. löggjafarþing — 91. fundur,  15. mars 2010.

greiðsluuppgjör á opinberum gjöldum lögaðila og einstaklinga í atvinnurekstri.

446. mál
[16:07]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um greiðsluuppgjör á opinberum gjöldum til handa aðilum í atvinnurekstri. Þetta frumvarp fjallar sem sagt um hvernig er hægt að gera fyrirtækjum sem eru í vanskilum með vörsluskatta mögulegt að greiða þá á einhverjum tíma. Það er lagt til að vanskilin verði sett á fimm ára skuldabréf sem sé verðtryggt og með núll prósent vöxtum.

Það sem mér kemur í hug er hvort hérna geti jafnvel verið um of mikla freistingu að ræða fyrir fyrirtæki sem kannski hafa verið í vanskilum en höfðu ætlað sér að greiða skuldina upp, hvort þarna sé komið tækifæri til þess að ná sér í ákaflega ódýra fjármögnun. Þess vegna mun ég taka það upp í hv. efnahags- og skattanefnd hvort menn eigi jafnvel að huga að því að það verði settir einhverjir vextir á þetta.

Jafnframt, til þess að fá hljómgrunn fyrir því að fá slíka meðferð, verður umsækjandi að vera í skilum með aðra skatta og gjöld. Ég tel að þetta gæti hugsanlega orðið til þess að enginn geti nýtt sér úrræðið vegna þess að það sem atvinnurekendur eða fyrirtæki og einstaklingar í atvinnurekstri fara síst með í vanskil af opinberum gjöldum eru vörsluskattarnir. Aftur á móti er ekki tekið jafnalvarlega á því að skattar og önnur gjöld séu í vanskilum og þess vegna er spurning hvort sú forgangsröð sem er sett hérna sé öfug, að raunverulega séu aðilarnir komnir í vanskil með skatta og gjöld og þetta sé seinasta úrræðið til þess að fara í vanskil með, þ.e. vörsluskattarnir. Við þurfum að fá mat á þessu áður en þetta frumvarp verður að lögum vegna þess að annars gæti það orðið til þess að það raunverulega gagnist ekki neinum.

Þetta frumvarp nær til um 70 milljarða kr. og það verða þá 70 milljarðar á skuldabréfum hjá hinum og þessum fyrirtækjum og einstaklingum í atvinnurekstri sem munu verða verðtryggð en tikka á núll prósent vöxtum, eða réttara sagt það eru engir vextir. Þetta verður því nokkuð mikil eign sem ríkissjóður á þarna og verður bókfært hjá ríkissjóði. Eins og segir í greinargerð er reynslan af vörslusköttum sem fara í vanskil þannig að minni hluti þeirra innheimtist, minna en helmingurinn alla vega, þannig að það er spurning hvort hérna sé komin eins konar gildra til þess að eignastaða ríkissjóðs líti betur út en hún er í raun og veru. Það þarf að huga að því.

Almennt vil ég segja um þetta frumvarp að mér finnst það vera góð gjörð hjá hæstv. fjármálaráðherra að reyna að koma til móts við fyrirtækin á þennan hátt. Hugsanlega eru þessir skavankar á málinu sem ég hef farið hérna yfir og við munum eflaust ræða þá í hv. efnahags- og skattanefnd.