138. löggjafarþing — 91. fundur,  15. mars 2010.

greiðsluuppgjör á opinberum gjöldum lögaðila og einstaklinga í atvinnurekstri.

446. mál
[16:12]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. fjármálaráðherra fyrir greinargerð sína fyrir þessu máli og öðrum sem hann hefur nú mælt fyrir. Ég hef gert ráðstafanir til þess að þau megi taka á dagskrá hv. efnahags- og skattanefndar þegar á fundi hennar á morgun þannig að hefja megi umfjöllun um þau.

Það er auðvitað kunnara en frá þurfi að segja að hér hafa verið miklir greiðsluerfiðleikar og ákveðinn uppsafnaður vandi sem þarf að taka á. Það sem mestu skiptir í því er að reyna að koma því þannig fyrir að sem flestum sem standa í rekstri megi auðnast að standa í skilum með gjöldin sem til falla í rekstrinum en að við afmörkum og tökumst á við hinn uppsafnaða vanda sérstaklega. Það er einmitt sú aðferð sem hér er beitt og hefur löngum verið affarasælust í því að hjálpa mönnum út úr greiðsluerfiðleikum. Ég held að þau úrræði sem kynnt eru í frumvarpinu séu sennilega til bóta og við munum auðvitað, eins og hér hefur komið fram hjá öðrum nefndarmönnum, fara yfir hvort þau megi skerpa eða bæta með einhverjum hætti í umfjöllun nefndarinnar og kalla eftir umsögnum þar um.