138. löggjafarþing — 91. fundur,  15. mars 2010.

aðför og gjaldþrotaskipti.

447. mál
[16:52]
Horfa

dómsmála- og mannréttindaráðherra (Ragna Árnadóttir):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breyting á lögum um gjaldþrotaskipti o.fl., nr. 21/1991, og lögum um aðför, nr. 90/1989.

Í tengslum við áætlun Alþjóðagjaldeyrissjóðsins um efnahagsaðstoð til Íslands óskaði sjóðurinn eftir að ýmis atriði varðandi íslenska gjaldþrotaskiptalöggjöf yrðu tekin til skoðunar. Í kjölfar þessa óskaði ráðuneytið eftir því að réttarfarsnefnd kannaði umræddar ábendingar og hvort rétt væri að gera breytingar á íslenskri gjaldþrotalöggjöf í framhaldinu. Tók nefndin þessi atriði til gaumgæfilegrar skoðunar og átti m.a. samráðsfundi með nokkrum fjölda lögmanna sem hafa mikla reynslu af störfum á vettvangi skuldaskilaréttar.

Í framhaldinu skilaði réttarfarsnefnd skýrslu varðandi þessi atriði og kom þar með tillögur um ýmis atriði sem rétt væri að breyta í lögum um gjaldþrotaskipti o.fl. sem og í lögum um aðför. Var skýrsla réttarfarsnefndar birt á heimasíðu ráðuneytisins í lok október sl. Loks skilaði nefndin ráðuneytinu frumvarpi því sem hér er mælt fyrir og byggist það á þeim tillögum sem nefndin setti fram í skýrslu sinni.

Í frumvarpinu eru lagðar til nokkrar breytingar sem lúta að gjaldþrotaskiptum og einföldun á nauðasamningsferlinu hvort sem í hlut á lögaðili eða einstaklingur og eru margar breytingarnar, þótt til bóta séu, alltæknilegs eðlis. Ég vil vekja athygli á því að það er sjaldgæft að einstaklingar leiti nauðasamninga, þeirra leið er þá nauðasamningar til greiðsluaðlögunar, og því fjallar þetta frumvarp fyrst og fremst um fyrirtæki. Ég geri þó fyrirvara um 1. gr. frumvarpsins sem fjallar um árangurslaust fjárnám.

Ég mun gera grein fyrir efni frumvarpsins en stikla á stóru eftir því sem mér er unnt. Ítarleg greinargerð fylgir frumvarpinu og ég vísa til hennar þegar efni ræðu þessarar sleppir.

Fyrst vil ég nefna að lagt er til að hugtakið „nákominn“ í gjaldþrotaskiptalögum verði einnig látið taka til þeirra einstaklinga sem hafa átt sæti í stjórn eða hafa sinnt daglegum rekstri félags. Þessir einstaklingar njóta ekki forgangs fyrir launakröfum sínum auk þess sem fyrirhuguð regla hefur einnig áhrif á riftanir eftir XX. kafla gjaldþrotaskiptalaga. Þá er gert að skyldu fyrirsvarsmanns lögaðila til að hlutast til um gjaldþrotaskipti á búi lögaðilans að viðlagðri skaðabótaskyldu. Er lagt til að þeir sem eiga að taka ákvörðun um að leita gjaldþrotaskipta á búi félaga og sem vanrækja þá skyldu sína beri skaðabótaábyrgð gagnvart lánardrottnum. Eru hér tekin af öll tvímæli um bótaskyldu stjórnenda lögaðila auk þess sem lagt er til að það verði hlutverk stjórnanda lögaðila að sýna fram á að vanrækslan hafi ekki verið honum saknæm, svokölluð sakarlíkindaregla. Er markmið þessarar reglu að skerpa á ábyrgð stjórnenda félaga að sinna þeirri skyldu sem á þeim hvílir að gildandi lögum. Að auki eru lagðar til breytingar sem auðvelda kröfuhöfum að fá staðfestingu á að skuldari sé ekki fær um að greiða skuld sína einkum til að koma í veg fyrir að skuldari geti á óeðlilegan hátt komið sér hjá gjaldþrotaskiptum með aðgerðaleysi sínu. Þannig geti kröfuhafi formlega skorað á skuldara að gefa skriflega staðfestingu á að hann sé greiðslufær.

Jafnframt er lagt til að regla gjaldþrotaskiptalaga um forgang launakrafna verði takmörkuð þegar um er að ræða kröfu um bætur vegna starfsloka. Í núgildandi 2. tölul. 1. mgr. 112. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. er mælt fyrir um forgang þeirra bótakrafna sem hafa orðið til vegna slita á vinnusamningi. Almennt fer réttur launþega til bóta vegna slita á vinnusamningi eftir reglum vinnuréttar og ræðst ýmist af ráðningar- eða launakjörum. Þó hafa dómstólar takmarkað slíkan rétt þegar um hefur verið að ræða samningsákvæði sem hafa verið óvenjuleg og lengri en venjulegt getur talist. Í stuttu máli er komið í veg fyrir að svokallaðir ofurlaunasamningar, starfslokasamningar með bónusum og þess háttar, njóti forgangs við gjaldþrotaskipti. Hér er lagt til að þessi framkvæmd komi ótvírætt fram í lögum og forgangur bótakrafna, sem verða til við slit á vinnusamningi, taki mið af því sem leiðir af lögum eða kjarasamningi en ekki sérstöku samningsákvæði um lengri uppsagnarfresti sem kunna að vera gerðir við starfslok.

Þá er rýmkuð heimild til að láta erlenda ákvörðun um gjaldþrotaskipti eða nauðasamninga ná til eigna hér á landi þannig að hún sé ekki bundin við að gerður hafi verið alþjóðasamningur um slíkt.

Í frumvarpinu eru einnig lagðar til ýmsar tæknilegar breytingar á ákvæðum gjaldþrotaskiptalaganna sem einfalda eiga ferli nauðasamninga, einkum um samþykki frumvarps til nauðasamnings. Til að greiða fyrir að skuldari geti fengið samþykkt frumvarp að nauðasamningi er lagt til að fullnægjandi sé að 60% kröfuhafa eftir höfðatölu greiði frumvarpi eða nauðasamningi atkvæði sitt í stað þess að sá fjöldi verði talinn á sama hátt og þegar eftirgjöf er reiknuð eftir kröfufjárhæð. Sem dæmi má nefna að í reglum frumvarpsins felst að ef farið er fram á 80% niðurfellingu á kröfu er þess krafist að þeir sem eiga 80% krafna reiknað eftir kröfufjárhæð þurfi að samþykkja nauðasamninginn en einungis 60% kröfuhafa eftir höfðatölu. Samkvæmt gildandi lögum er reglan hins vegar sú að 80% kröfuhafa, taldir bæði eftir höfðatölu og kröfufjárhæð, þurfa að samþykkja niðurfellinguna. Með þeirri breytingu sem lögð er til í frumvarpinu er skuldara gert auðveldara að ná nauðasamningum við kröfuhafa sína ef hann hefur náð samþykki stærstu kröfuhafa sinna fyrir nauðasamningi.

Þá er einnig lagt til að kröfuhafi geti greitt atkvæði um nauðasamning í kröfulýsingu og fellt er brott skilyrði um að skuldari þurfi fyrir fram að leita skriflegs samþykkis kröfuhafa til að fá heimild til að leita nauðasamnings. Einnig er fellt brott að skuldari þurfi að fá samþykki kröfuhafa til að bera frumvarp til nauðasamnings sem tekið hefur breytingum í nauðasamningaferlinu undir atkvæði til samþykktar eða synjunar. Nóg þyki að hann beri slíkt frumvarp upp til samþykktar eða synjunar en ekki líka að fá heimild til að láta greiða atkvæði um frumvarpið. Eru þetta allt atriði sem létta almennt nauðasamningaferlið.

Þá er lögð til regla um að hvaða marki krafa sem tryggð er með veði teljist veðkrafa og að hvaða marki samningskrafa þegar veðið hrekkur ekki til greiðslu skuldarinnar að fullu. Þannig geti kröfuhafi afsalað sér þeim hluta kröfu sinnar er hann telur falla utan veðtryggingar. Sá hluti sem út af stendur geti þá fallið undir efni nauðasamnings.

Virðulegi forseti. Í frumvarpinu er einnig lögð til breyting á lögum um aðför. Er lagt til að heimilt verði að gera árangurslaust fjárnám sem geti verið grundvöllur gjaldþrotaskipta án þess að gerðarþoli eða einhver til að taka málstað hans sé viðstaddur enda hafi hann sannanlega verið boðaður til gerðarinnar og eigi ekki neinar eignir sem unnt er að gera fjárnám í. Vakin er athygli á því að í frumvarpinu er lögð til sérstök heimild fyrir gerðarþola til að krefjast endurupptöku gerðar sem lokið hefur án árangurs ef hann getur bent á eignir til fjárnáms. Þessi breyting á ekki að valda því að gjaldfær skuldari sæti gjaldþrotaskiptum. Eingöngu er verið að greiða fyrir því að unnt verði að gera árangurslaust fjárnám án þess að leita þurfi uppi skuldara og færa til sýslumanns eftir atvikum með aðstoð lögreglu.

Virðulegi forseti. Ég hef gert grein fyrir helstu atriðum frumvarpsins og legg til að því verði vísað til 2. umr. og allsherjarnefndar.