138. löggjafarþing — 91. fundur,  15. mars 2010.

aðför og gjaldþrotaskipti.

447. mál
[17:01]
Horfa

dómsmála- og mannréttindaráðherra (Ragna Árnadóttir) (andsvar):

Virðulegi forseti. Já, ég get staðfest það að þetta frumvarp fjallar fyrst og fremst um að gera nauðasamningsferlið einfaldara og skilvirkara fyrir fyrirtæki og í rauninni er verið að gera úrræðið fýsilegri kost fyrir fyrirtæki sem eiga í vandræðum, sem ella horfa upp á gjaldþrot, og með því er verið að vernda lífvænleg fyrirtæki. Það má segja það.

Hvað varðar réttarbætur til handa skuldara, þ.e. til handa lánþegum, einstaklingum, er þetta frumvarp ekki þáttur í þeirri vinnu, heldur er það þannig að það hefur farið fram vinna í ráðuneytinu og í félagsmálaráðuneytinu þar sem dómsmálaráðuneytið er að vinna að því í samráði við réttarfarsnefnd, þ.e. að huga að því hvernig bæta megi stöðu lánþega eða skuldara við nauðungarsölur. Fleiri atriði eru til skoðunar. Það hefur líka verið nefnt að verið sé að endurskoða greiðsluaðlögunarúrræði. Það er gert í samráði við eða í samvinnu tveggja ráðuneyta, dómsmálaráðuneytis og félagsmálaráðuneytis, en ég á von á að þessar tillögur verði kynntar til sögunnar innan skamms.