138. löggjafarþing — 91. fundur,  15. mars 2010.

aðför og gjaldþrotaskipti.

447. mál
[17:02]
Horfa

Ólöf Nordal (S) (andsvar):

Frú forseti. Í framhaldi af þessum orðum hæstv. dómsmálaráðherra, og þeirrar vinnu sem hefur verið nokkuð í umfjöllun í fjölmiðlum undanfarna daga um þau úrræði sem hæstv. félags- og tryggingamálaráðherra er að kynna, langar mig til að spyrja að því hvort á vettvangi dómsmálaráðuneytisins sé verið að huga sérstaklega að gjaldþrotareglunum, hvort verið sé að líta til þess að gera þurfi einhverjar frekari endurbætur á reglum er varða gjaldþrot sérstaklega. Jafnframt það hvort menn séu að skoða lög um fyrningu, fyrningarfrest, hvort uppi séu áform um nánari skoðun á því hvort hægt sé að breyta lögum um fyrningu þegar litið er til þess að við erum í mjög óvenjulegu ástandi. Við vitum auðvitað að réttarfar okkar á sviði fullnusturéttar var ekki hugsað við þær aðstæður sem nú eru uppi í þjóðfélaginu þar sem svo stórkostleg vandamál snúa að íslenskum heimilum eins og nú er.