138. löggjafarþing — 91. fundur,  15. mars 2010.

sveitarstjórnarlög.

452. mál
[17:06]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Kristján L. Möller) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á sveitarstjórnarlögum, nr. 45/1998, með síðari breytingum.

Markmið frumvarpsins er að tryggja nauðsynlegar lagaheimildir til þess annars vegar að afla ársfjórðungslegra fjármálaupplýsinga frá sveitarfélögum og hins vegar til þess að auka aðgengi eftirlitsnefndar með fjármálum sveitarfélaga að upplýsingum úr bókhaldi og reikningsskilum sveitarfélaga.

Segja má að frumvarpið sé fyrsti áfangi á þeirri leið okkar að bæta og efla efnahagssamráð ríkis og sveitarfélaga, auka fjármálalegt samráð þessara stjórnsýslustiga til lengri og skemmri tíma og bæta fjárhagslegt aðhald með setningu fjármálareglna fyrir sveitarfélög.

Um nokkurt skeið hefur verið sameiginlegur skilningur hjá ríki og sveitarfélögum að nauðsynlegt væri að aðilar samræmdu betur efnahagsstjórn þessara stjórnsýslustiga. Með yfirlýsingu sem undirrituð var í mars 2007 lýstu aðilar sig sammála um að vinna að mótun tillagna um fjármálareglur fyrir sveitarfélögin og bætta upplýsingaöflun sem tryggt geti að fjármál sveitarfélaganna vinni með ríkisfjármálunum og að því er varðar almenna hagstjórn. Í þessu sambandi skyldi sérstaklega hugað að markmiðssetningu varðandi þak á vöxt útgjalda sveitarfélaga, þak á hlutfall skulda þeirra og tekjuafkomu þeirra. Um þetta samkomulag má lesa á heimasíðu Sambands íslenskra sveitarfélaga.

Þrátt fyrir talsverða vinnu tókst ekki að ná samstöðu um meginsjónarmið varðandi setningu slíkra fjármálareglna fyrir sveitarfélög á grundvelli yfirlýsingarinnar áður en efnahagskreppan skall á. Það þótti mér, hæstv. forseti, miður, því að ég hef eindregið verið þeirrar skoðunar að afar brýnt sé að sveitarfélögunum verði settar fjármálareglur og tel að slíkar reglur hefðu getað dregið úr þeim slæmu áhrifum sem efnahagskreppan hefur haft á fjármál sveitarfélaganna. Efnahagskreppan hefur hins vegar aukið skilning okkar á mikilvægi slíkra reglna og öflun fjármálaupplýsinga frá sveitarfélögunum. Ég held að mér sé óhætt að fullyrða að efnahagskreppan hafi gert það að verkum að ríki og sveitarfélög hafi snúið enn frekar bökum saman um ýmsar ráðstafanir til að takmarka það tjón sem efnahagskreppan hefur valdið sveitarfélögunum og varða leiðina fram á við fyrir sveitarstjórnarstigið út úr þessum efnahagsþrengingum. Það væri of langt mál, hæstv. forseti, að tíunda öll þau atriði en það sem mestu máli skiptir fyrir það mál sem hér er á dagskrá varðar efnahagssamráðið. Okkur hefur lánast, vil ég segja, að endurvekja umræðuna um það hvernig við, þ.e. ríki og sveitarfélög, getum bætt þá veikleika sem sannarlega eru varðandi fjármálaleg samskipti ríkis og sveitarfélaga og ekki síst varðandi efnahagssamráð þessara tveggja stjórnsýslustiga.

Þann 1. október síðastliðinn undirrituðu samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra ásamt fjármálaráðherra fyrir hönd ríkissjóðs og formaður og framkvæmdastjóri Sambands íslenskra sveitarfélaga fyrir hönd sambandsins svokallaðan vegvísi að gerð hagstjórnarsamnings. Með honum lýstu aðilar sig sammála um að með tilliti til hagstjórnar þurfi að líta á fjármál opinberra aðila sem eina heild og að nauðsynlegt sé að þeir sem ábyrgir eru fyrir þeim hafi með sér samráð og samstarf. Í vegvísinum voru tíunduð nokkur markmið sem eru leiðarljós í samstarfi þeirra í opinberum fjármálum og efnahagsmálum. Meðal markmiða voru að haga skuli fjármálum hins opinbera í samráði við ákveðin mörk og viðmið sem sett eru við hagstjórn landsins. Enn fremur að unnið skuli að gerð fjármálareglna fyrir sveitarfélög er tryggi að markmið um rekstrarafkomu náist og reisi skorður við skuldsetningu þeirra. Að mótun hagstjórnarsamnings í samræmi við vegvísinn er nú unnið í samráðsnefnd um efnahagsmál sem starfar á grundvelli samstarfssáttmála ríkis og sveitarfélaga. Nefndin hefur haft á sínum snærum sérfræðing í tímabundnu starfi við gerð samningsins. Búist er við því að tillögur nefndarinnar líti dagsins ljós á næstu vikum og bind ég, hæstv. forseti, miklar vonir við þessa vinnu sem ég tel að hafi verið í mjög góðum farvegi síðustu mánuðina.

Ég vil einnig geta þess að nefndin stóð fyrir alþjóðlegu málþingi í Reykjavík í janúar síðastliðnum þar sem erlendir sérfræðingar tóku þátt í umræðu með nefndinni og öðrum þátttakendum um nauðsyn á slíku samstarfi ríkis og sveitarfélaga og setningu fjármálareglna fyrir sveitarfélög.

Ég vil geta þess, hæstv. forseti, að nú stendur yfir heildarendurskoðun sveitarstjórnarlaga. Ég hef falið sérstökum starfshópi sem skipaður er fulltrúum samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra og sambandsins að annast þetta verkefni. Vænta má tillagna frá starfshópnum síðar á þessu ári og hyggst ég með hliðsjón af almennri umræðu um tillögurnar leggja fyrir Alþingi frumvarp til nýrra sveitarstjórnarlaga á komandi haustþingi. Gera má ráð fyrir að nefndin leggi fram margvíslegar breytingar á fjármálakafla laganna, m.a. með hliðsjón af þeim tillögum sem samráðsnefnd um efnahagsmál leggur fram um setningu fjármálareglna fyrir sveitarfélögin og gerð hagstjórnarsamnings. Nefndin mun einnig meta hvort tilefni er til að endurskoða kaflann um eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga.

Því er þetta frumvarp eins og ég nefndi áðan, hæstv. forseti, fyrsta skrefið á breytingaferli sem er hafið og varðar fjármálaleg samskipti ríkis og sveitarfélaga og setningu fjármálareglna. Frumvarpið miðar að því að gera nauðsynlegar breytingar á tilteknum ákvæðum laganna er varðar regluleg skil fjármálaupplýsinga sveitarfélaga og heimildir eftirlitsnefndar til að afla upplýsinga úr bókhaldi og reikningsskilum sveitarfélaga. Ég tel afar brýnt að umrædd ákvæði verði strax sett inn í núverandi sveitarstjórnarlög en ekki beðið eftir heildarendurskoðun þeirra sem nú stendur yfir eins og áður sagði, enda leggur það ákveðinn grunn að þeirri endurskipulagningu sem nú er unnið að varðandi samráð ríkis og sveitarfélaga um efnahagsmál.

Hæstv. forseti. Frumvarpið er ekki stórt í sniðum en engu að síður mikilvægt. Í 1. gr. er kveðið á um skil fjármálaupplýsinga. Samkvæmt gildandi lögum er sveitarfélögum aðeins skylt að senda ráðuneytinu ársreikning, fjárhagsáætlun og þriggja ára áætlun. Felur ákvæðið því í sér auknar kröfur um upplýsingagjöf af hálfu sveitarfélaga. Hér er um mikilvægt ákvæði að ræða sem ætti að leiða til þess að haldbetri upplýsingar liggi fyrir á hverjum tíma um fjárhagsstöðu einstakra sveitarfélaga og sveitarfélaganna almennt. Þessi aukna upplýsingagjöf er forsenda þess að efla eftirlit með fjármálum sveitarfélaga og auka virkni sveitarstjórnarstigsins í hagstjórn hins opinbera. Slíkar upplýsingar eru jafnframt nauðsynlegar í tengslum við þá vinnu sem nú á sér stað, að ríki og sveitarfélög geri með sér árlegan hagstjórnarsamning.

2. gr. frumvarpsins mælir fyrir um að eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga fái sömu stöðu til að afla upplýsinga um fjármál og reikningsskil einstakra sveitarfélaga og endurskoðendur og skoðunarmenn sveitarfélaga hafa. Eftirlitsnefnd fær þar með skýrari heimildir til að kalla eftir upplýsingum og gera athuganir sem hún telur nauðsynlegar, fær aðgang að öllum eignum, bókum, fylgiskjölum og öðrum gögnum viðkomandi sveitarfélags.

Hæstv. forseti. Ég vil leyfa mér að leggja til að að aflokinni 1. umr. um frumvarpið verði því vísað til umfjöllunar í hv. samgöngunefnd.